Tækifærið sem Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, leggur á borð fjárfesta er að þeir geti tólf- til þrettánfaldað fjárfestingu sína á þremur árum. Play minnir á áhættufjárfestingu hjá tæknifjárfesti þar sem annaðhvort verður fyrirtækið að gulli eða fer á öskuhauga sögunnar.

Fjárfestum er sagt að hlutafé Play, sem stefnir á að reka tíu flugvélar eftir þrjú ár, verði um 44 milljarða virði eftir þrjú ár. Það er bratt að reikna með að virðið verði svipað og Icelandair eftir skamma stund og rúmlega helmingur af núverandi markaðsvirði Norwegian sem rekur 170 flugvélar.

Robert_Wessman-standing.jpg

Verndaður

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, tók u-beygju í Kauphöllinni í vikunni þegar félag á vegum hans og viðskiptafélaga hans seldi öll bréf sín í fasteignafélaginu Heimavöllum fyrir 560 milljónir króna og keypti bréf í fjarskiptafélaginu Sýn fyrir sömu upphæð.

Þegar Róbert seldi bréfin í Heimavöllum á genginu 1,1 hlýtur yfirstjórn Kauphallarinnar að hafa verið honum ofarlega í huga en hún kom sem kunnugt er í veg fyrir afskráningu fasteignafélagsins í vor sem átti að fela í sér yfirtöku á genginu 1,3. Kauphöllin vildi vernda hluthafana og taldi að afskráning myndi valda þeim verulegu tjóni.

F29070618 RaGun-05.jpg

Brandenburg kryddar Play

Viðskiptamódel Play er í grunninn að endurtaka það sem vel var gert hjá WOW air og sleppa því að verða gjaldþrota. Í ljósi þess þarf því ekki að koma á óvart að stjórnendur flugfélagsins hafi leitað til auglýsingastofunnar Brandenburg með Braga Valdimar Skúlason og Ragnar Gunnarsson í stafni.

Það er rökrétt skref því auglýsingastofan aðstoðaði WOW air í upphafi. En ef fylgja á í fótspor Skúla Mogensen verða Playmenn að gyrða sig í brók þegar kemur að útliti glærukynninga.