Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar, var á nýlega ráðin til sjávarútvegsfyrirtækisins Brims þar sem hún mun gegna stöðu framkvæmdastjóra nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla. Gréta María á ekki langt að sækja áhugann á sjávarútvegi en faðir hennar, Grétar Már Kristjánsson, gerði sjómennsku að ævistarfi og var skipstjóri um langt skeið.*

Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi forseti ASÍ
Fréttablaðið/Anton Brink

Gylfi hlynntur

Viðbrögðin við áformum ríkissjóðs um að selja hlut í Íslandsbanka hafa verið á báða bóga. Daði Már Kristófersson prófessor, varaformaður Viðreisnar, gagnrýndi áformin í nýlegri færslu á Facebook. Hefur hann áhyggjur af því að salan feli í sér einkavæðingu á hagnaði en ríkisvæðingu á tapi ef illa fer. Athygli vakti að Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi forseti ASÍ, blandaði sér í umræðuna og talaði gegn víðtæku eignarhaldi ríkisins. Hann varpaði fram þeirri spurningu hvort ríkið ætti að taka áhættu af bankarekstri og hækka skatta til að greiða fyrir hallarekstur eða draga úr áhætturekstrinum og greiða niður skuldir. Óhætt er að segja að afstaða Gylfa sé ólík því sem heyrst hefur frá núverandi forystu ASÍ. Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi varaformaður Viðreisnar, talaði á sömu nótum og benti á að umræðan um einkavæðingu hagnaðar og ríkisvæðingu taps í bankastarfsemi ætti ekki við þar sem umfangsmiklar breytingar hefðu verið gerðar á regluverkinu eftir hrun.

Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino's.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sproti án aðildar

Samtök atvinnulífsins stóðu á dögunum fyrir veitingu menntaverðlauna atvinnulífsins en þar var skyndibitakeðjan Domino's valin menntasproti ársins 2021. Birgir Örn Birgisson framkvæmdastjóri tók við verðlaununum en hann hefur ekki leynt óánægju sinni með gerð lífskjarasamningsins sem samtökin stóðu að. Mikill samdráttur í rekstrarhagnaði skyndibitakeðjunnar, sem rekja má til hækkunar á launakostnaði, varð meðal annars til þess að Domino's sagði sig úr SA og gekk í hin nýju Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði. Birgir hefur sagt að veitingareksturinn hafi vantað rödd innan Samtaka atvinnulífsins og að gengið hafi verið of langt í gerð lífskjarasamningsins miðað við getu greinarinnar til að borga hærri laun.

*Leiðrétting: Í upphaflegu útgáfu Skotsilfurs Markaðarins kom fram að faðir Grétu Maríu væri Grétar Mar Jónsson, skipstjóri og fyrrverandi Alþingismaður. Þessi fullyrðing hefur verið leiðrétt og biðst Markaðurinn velvirðingar á mistökunum.