Þeir Frosti Ólafsson, fyrrverandi forstjóri ORF Líftækni og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Björn Brynjúlfur Björnsson, ráðgjafi og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, bættust í liðinni viku á lista yfir hóp fruminnherja Haga, sem ráðgjafar félagsins. Ekki þarf að koma á óvart að Finnur Oddsson, sem settist í forstjórastól smásölurisans í byrjun þessa mánaðar, leiti til þeirra eftir ráðgjöf, en Frosti og Finnur störfuðu saman um nokkurra ára skeið hjá Viðskiptaráðinu. Finnur var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs á árunum 2007 til 2012, en í kjölfarið tók Frosti við keflinu fram til ársins 2017.

Guðlaug Líney.jpg

Erfið staða

Ekkert gengur að semja við flugfreyjur og því er framtíð Icelandair ennþá í mikilli óvissu. Forsvarsmenn samninganefndar flugfreyja, sem Guðlaug Líney Jóhannsdóttir fer fyrir, harðneita því að launin sem krafist er yrðu þau hæstu á byggðu bóli. Það má vel vera að einhvers staðar í heiminum séu flugfreyjur á hærri launum en farið er fram á gagnvart Icelandair. En sé litið til einhverra keppinauta Icelandair, til að mynda í Evrópu, þarf ekki að leggjast í langdregnar rannsóknir til að sjá að flugfreyjur EasyJet og Wizz Air fá greitt á bilinu 250 til 300 þúsund krónur á mánuði. Ekki þar með sagt að Icelandair eigi að bjóða slík kjör, en það breytir ekki þeim raunveruleika að öll þrjú flugfélögin sem hér eru nefnd, eru skráð til heimilis á evrópska efnahagssvæðinu þar sem frjálst flæði vinnuafls er heimilt.

Bogi Nils

Aldrei aftur

Á meðan flugfreyjur Icelandair eru að grafa sína eigin gröf gætir vaxandi óánægju meðal flugmanna og flugvirkja félagsins, sem hafa samþykkt nýja kjarasamninga, hversu lítinn skilning Flugfreyjufélag Íslands hefur sýnt gagnvart þeirri stöðu sem flugfélagið stendur nú frammi fyrir. Mikill meirihluti stéttarinnar, sem kolfelldi tillögu að nýjum kjarasamningi, hefur ekki meðtekið þá staðreynd að þau kjör sem flugfreyjur, ásamt öðrum flugstéttum, hafa búið við um langt skeið verða aldrei aftur í boði, hvorki hér á landi né annars staðar. Þess í stað virðist stéttarfélagið ætla að veðja á að íslenska ríkið hlaupi undir bagga og niðurgreiði óarðbæran rekstur Icelandair, sem er stýrt af Boga Nils Bogasyni, til langframa, með því viðhalda þessum kjörum flugáhafna félagsins. Stjórnmálamenn munu þá þurfa að svara þeirri spurningu hvort réttlætanlegt sé að nýta takmarkaða fjármuni ríkissjóðs um þessar mundir með slíkum hætti, í harðri samkeppni við önnur flugfélög. Það verður að teljast afar ólíklegt.