Hlutafjárútboð Íslandsbanka hefur gengið vel og það endurspeglast í gífurlegri eftirspurn. Þegar almenningur sýnir útboðinu jafn mikinn áhuga og raun ber vitni vakna spurningar um þær takmarkanir sem hafa verið á faglegri, opinberri umræðu um útboðið. Bankasýslan hefur ráðið svo mörg fjármálafyrirtæki til að koma að útboðinu með einum eða öðrum hætti að varla hefur fundist viðmælandi á fjármálamarkaði sem ekki er bundinn þagnarskyldu þar til um mánuði eftir að útboðinu lýkur. Opinber umræða er fátæklegri fyrir vikið og ekki bætir úr skák að Evrópulöggjöfin MiFid II hefur sniðið fjárfestingaráðgjöf fyrirtækja þröngan stakk

Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokkssins.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Alltaf hagkvæmara

Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins, er fullyrðingaglaður í gagnrýni sinni á ríkjandi skipan þjóðfélagsins. Nú síðast tók hann fyrir leigusamning ríkisins við félagið Íþöku vegna leigu skrifstofuhúsnæðis undir Skattinn. Frá sjónarhóli Gunnars Smára er alltaf hagkvæmara fyrir ríkið að eiga sínar eigin húseignir og langtímasamningur við einkarekið fasteignafélag jafngildir því að ríkið gefi heilt skrifstofuhúsnæði til fjármagnseigenda. En röksemdarfærslan hlýtur að ná lengra. Í krafti stærðar sinnar ætti ríkið einfaldlega að segja upp öllum samningum um aðkeypta þjónusta og sinna henni sjálft með ódýrari hætti. Eða hvað? Þegar á reyndi kom raunveruleikinn sósíalismanum í koll þótt kenningarnar segðu annað.

Sigurður Kristinsson.

Stýrir 97 milljörðum

Alþjóðlegi fjárfestingarisinn KKR hefur komið á fót nýju félagi, AV AirFinance, sem sérhæfir sig í fjármögnun flugfélaga. Nýja félagið kom inn á markaðinn með látum og keypti 800 milljóna dala lánasafn, jafnvirði 97 milljarða króna, sem nær yfir fleiri en 60 farþegaþotur. Athygli vekur að Sigurður „Siggi“ Kristinsson hefur verið ráðinn forstjóri SV AirFinance en hann hefur áratuga reynslu á þessu sviði. Sigurður stofnaði Volito Aviation Services í Svíþjóð og var forstjóri þess í 14 ár en fyrirtækið veitti meðal annars þjónustu og ráðgjöf til Goldman Sachs. Áður starfaði Sigurður um langt skeið í Lúxemborg