Íbúðalánasjóður (ÍLS) er í tilvistarkreppu. Hlutverk sjóðsins á lánamarkaði hefur skroppið saman og nú felst það einkum í því að bera ábyrgð á „framkvæmd húsnæðismála“. En ríkisstofnanir spyrna við þegar vægi þeirra dvínar og sjá mátti merki um þessar tilhneigingar á húsnæðisþinginu sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra stóð nýlega fyrir. Í kynningu ÍLS birtust ný orð yfir aldagömul fyrirbæri. Þegar einhver byggir húsnæði á landsbyggðinni og markaðsverð reynist lægra en byggingarkostnaður heitir það ekki lengur tap heldur misvægi. Orðræða ÍLS snýst síðan um að hið opinbera leiðrétti þetta misvægi. Sjóðurinn deyr ekki ráðalaus.

Jón Ásgeir Jóhannesson.jpg

Skildu eftir nefndirnar

Erlendu sjóðirnir hafa sett sitt mark á hlutabréfamarkaðinn. Þeir komu ekki aðeins með fjármagn heldur einnig framandi hugmyndir. Tilnefningarnefndir náðu útbreiðslu 2018 eftir bréfaskriftir Eaton Vance til þeirra skráðu félaga sem sjóðir fyrirtækisins höfðu fjárfest í. Ýmsir einkafjárfestar, til dæmis Jón Ásgeir Jóhannesson, höfðu þó uppi efasemdir um nýja fyrirkomulagið og töldu það geta grafið undan áhrifum minnihlutans. En um leið og bylgjan hafði gengið yfir og flest félög komið tilnefningarnefndum á fót byrjuðu erlendu sjóðirnir að selja sig út úr íslensku félögunum. Nefndirnar standa hins vegar eftir enn óhaggaðar.

Jón Sigurðsson.jpg

Gjáin gliðnar

Verðbil hlutabréfa í fjarskiptafélögunum hefur breikkað. Fyrir ári var markaðsvirði Símans um 32 milljarðar en Sýnar um 20 milljarðar. Þá voru 12 milljarðar sem skildu félögin að en eins og staðan er í dag er markaðsvirði Símans fimmfalt meira en Sýnar. Það stendur nú í 50 milljörðum en er aðeins í eins stafs tölu hjá Sýn, rétt tæplega 10 milljörðum. Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Stoða stærsta hluthafa Símans, getur vel við unað.