Jónína S. Lárusdóttir, sem var áður framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Arion banka, hefur verið ráðin til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem hún mun stýra innra markaðssviði stofnunarinnar. Jónína lét af störfum hjá bankanum í september eftir níu ára starf en hún sat auk þess um árabil í stjórn Valitor. Áður en hún fór til Arion banka var Jónína ráðuneyt­is­stjóri í efna­hags- og viðskiptaráðuneyt­inu frá 2007 til 2010 og á ár­un­um 2004 til 2007 var hún skrif­stofu­stjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyt­inu.

Allir stærstir

Allir vita að íslensku bankarnir eru langbestir. Þeir geta skreytt sig með slíkum erlendum verðlaunum. Bankar og fjármálafyrirtæki rýndu í gögn um mestu viðskipti ársins í Kauphöllinni. Nánast hver og einn gat fundið eitthvað til að hrósa sigri yfir og því var hrært í margar glæsilegar fréttatilkynningar. Íslandsbanki átt í mestum viðskiptum á verðbréfamarkaði, Arion seldi mest af hlutabréfum, Kvika skaraði fram úr í skuldabréfum og Fossar markaðir með Harald Þórðarson í stafni komu að helmingi af 20 stærstu hlutabréfaviðskiptum ársins. Það geta næstum allir verið gordjöss.

Aðsend/Fossar markaðir

Ágreiningur í bankaráði

Mikið hefur verið rætt og ritað síðustu daga um fréttir Markaðarins af arðsemiskröfu Bankasýslunnar til ríkisbankanna. Svo virðist sem umræðan hafi meðal annars leitt í ljós ákveðinn ágreining um málið innan bankaráðs Landsbankans, allavega ef marka má framgöngu sumra bankaráðsmanna á Face­book. Þannig benda gárungar á að á meðan Guðbrandur Sigurðsson hafi „lækað“ færslu Gylfa Magnússonar dósents um að arðsemiskrafan væri allt of há hafi kollegi hans, Hersir Sigurgeirsson, sett „læk“ við svar Sigurðar Atla Jónssonar, fyrrverandi forstjóra Kviku, sem sagði kröfuna síst of háa.

Fréttablaðið/Anton Brink