Jón Ingi Árnason, sem starfaði áður í markaðsviðskiptum Landsbankans, hefur verið ráðinn til Arctica Finance. Mun hann þar starfa í markaðsviðskiptum verðbréfafyrirtækisins. Jón Ingi er annar starfsmaðurinn á skömmum tíma sem tekur til starfa í markaðsviðskiptum Arctica Finance en Valdimar Ármann, fyrrverandi forstjóri GAMMA Capital Management, gekk sem kunnugt er nýverið til liðs við fyrirtækið. Áður en Jón Ingi hóf störf hjá Landsbankanum starfaði hann um skeið í markaðsviðskiptum Kviku og Straums.

Aftur í lögmennsku

Ingvi Hrafn Óskarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga og fyrirtækjaverkefna hjá GAMMA Capital Management, hefur gengið til liðs við eigendahóp Lögfræðistofu Reykjavíkur. Ingvi Hrafn hætti störfum hjá GAMMA síðasta haust en hann var meðal annars sjóðsstjóri GAMMA:Novus, eiganda Upphafs fasteignafélags. Ingvi Hrafn, sem hefur lokið meistaraprófi í lögum frá Columbia-háskóla og meistaraprófi í fjármálum frá London Business School, hefur meðal annars starfað hjá Lögmönnum Lækjargötu, Íslandsbanka og Glitni.

Jón Garðar til MAR Advisors

Jón Garðar Guðmundsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Icelandic Group, hefur hafið störf hjá MAR Advisors, ráðgjafarfyrirtæki Magnúsar Bjarnasonar, stjórnarformanns Iceland Seafood. Jón Garðar gengur inn í eigendahóp félagsins, sem veitir ráðgjöf á sviði innviða og sjávarútvegs, en það hefur starfað fyrir bankann Macquarie, Norsk Hydro og fjárfestingasjóðinn Frumtak. Jón Garðar og Magnús störfuðu áður saman hjá Icelandic Group.