Það er erfitt að handstýra markaðnum, eins og Samkeppniseftirlitið, undir forystu Páls Gunnars Pálssonar, hefur komist að raun um. Eftirlitið taldi fyrir tveimur árum mikilvægt að tilteknar verslanir sem voru í eigu Haga yrðu seldar til allra annarra en Festar til að auka samkeppni. Úr varð að nýtt fyrirtæki keypti þrjár verslanir af Högum í höfuðborginni. Fljótlega varð að loka tveimur þeirra vegna rekstrarvanda. Nú er svo komið að Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt að Festi kaupi þriðju verslunina enda myndi henni ella verða lokað. Afskiptasemin borgaði sig ekki.

sigurður-hannesson.jpg

Horft í spegil

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að vonandi muni bankar sjá tækifæri til að styðja við vöxt nýsköpunarfyrirtækja, eins og raunin var með Marel og Össur, á næsta áratug. Það er til mikils að vinna. Sigurður verður ekki í miklum vandræðum með að koma þessum skilaboðum á framfæri. Hann er stjórnarformaður Kviku banka og á því hægt um vik að ræða málið í þaula við stjórn og forstjóra bankans.

Einar Hugi.jpg

Í stjórn GAMMA

Breytingar voru gerðar á stjórn GAMMA, dótturfélags Kviku banka, á hluthafafundi félagsins í lok síðasta mánaðar og hefur Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, tekið við sem stjórnarformaður í stað Andra Vilhjálms Sigurðssonar sem hverfur úr stjórninni. Hið sama á við um Hlíf Sturludóttur en í hennar stað kemur í stjórnina Sigríður Mogen­sen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins og sömuleiðis stjórnarmaður í Júpiter rekstrarfélagi sem er sömuleiðis í eigu Kviku banka.