Það ætlar ekki af Arion banka að ganga. Dótturfélag hans, Valitor, hefur verið rekið með um 5 milljarða tapi síðustu 18 mánuði og í fyrradag var tilkynnt að aukið tap Valitors á þriðja fjórðungi hefði neikvæð áhrif á bankann sem nemur 900 milljónum. Fyrirtækið hefur lagst í mikla fjárfestingu samhliða alþjóðlegum umsvifum sem væntingar hafa verið um að myndu skila sér í auknum verðmætum. Í síðustu viku skipti Arion út meirihluta stjórnarmanna. Þykir sú breyting til marks um að farið sé að hitna undir stól Viðars Þorkelssonar, forstjóra félagsins til níu ára.

Margrét-Tryggvadóttir.jpg

Undir þrýstingi

Bandarísk stjórnvöld hafa farið í hart gegn Huawei og er fyrirtækjum þar í landi bannað að nota fjarskiptabúnað frá kínverska fjarskiptarisanum. Varaforseti Bandaríkjanna varaði íslensk stjórnvöld sérstaklega við að nota slíkan búnað í heimsókn sinni á Íslandi. Bæði Nova og Sýn nota búnað frá Huawei en helmingseigandi Nova, sem stýrt er af Margréti Tryggvadóttur, er bandaríska félagið PT Capital. Ætla má að bandarísk stjórnvöld séu óánægð með tengsl þess við Huawei og að þau séu að þrýsta á fyrirtækið.

Ragnar Þór

Gæti klikkað

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, reynir að fá lífeyrissjóði til að fjármagna húsnæðisfélagið Blæ sem á helst að vera góðgerðarstofnun. Til að lokka sjóðina að sagði hann að raunhækkun húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu frá 1997 væri rúmlega fjögur prósent. Lífeyrissjóðir eru ekki braskarar sem selja húsnæði til að leysa út verðhækkanir. Hækkunin, ef það er forsenda, yrði að vera í formi húsaleigu. Hún gæti rokið upp í góðæri. Formaðurinn þarf að beygja sig undir markaðslögmálin vilji hann koma á fót húsnæðis­félagi með annarra manna fé.