Kauphöllin er með nær órjúfanlegt samkeppnisforskot og njóta hluthafar ávaxtanna af því. Arðsemi eigin fjár var um 24 prósent árið 2017 og hún greiðir rausnarleg laun. Fyrirtækið hefur því ljóslega hagsmuni af því að sem flest félög séu skráð á hlutabréfamarkað. Engu að síður er hún oft flokkuð með Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum sem horfa ekki til arðsemisjónarmiða enda er um mikilvægan innvið að ræða. Það er vert að halda þeim hagsmunum til haga í umræðu um að Kauphöllin með Pál Harðarson forstjóra í stafni hafi meinað hluthöfum Heimavalla að skrá félagið af markaði.

Hættir hjá Landsbankanum

Steingrímur Helgason, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans, hefur hætt störfum hjá bankanum. Steingrímur, sem er hagfræðingur að mennt, lét af störfum síðastliðinn þriðjudag, samkvæmt heimildum Markaðarins. Hann hafði unnið í Landsbankanum samfleytt í 16 ár og þar af stýrt fyrirtækjaráðgjöf bankans frá árinu 2009. Þar áður starfaði Steingrímur hjá Búnaðarbanka og Kaupþingi.

Ný stjórn GAMMA

Andri Vilhjálmur Sigurðsson, einn eigenda Lögmanna Lækjargötu, og Anna Rut Ágústsdóttir, forstöðumaður viðskiptatengsla Kviku banka, hafa tekið sæti í stjórn GAMMA Capital Management í kjölfar kaupa Kviku á verðbréfafyrirtækinu. Hlíf Sturludóttir, sem hefur setið í stjórn GAMMA frá árinu 2013, þar af sem stjórnarformaður síðasta árið, mun áfram eiga þar sæti. Starfsemi GAMMA mun breytast talsvert í kjölfar sameiningarinnar en í félaginu verða nú einkum reknir sjóðir sem fjárfesta í fasteignum og lóðum og öðrum sérhæfðum verkefnum.