Háar greiðslur til Lúðvíks Bergvinssonar, lögmanns og sérstaks óháðs kunnáttumanns sem fylgist með því að skilyrðum í sátt N1 og Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa olíufélagsins á Festi sé fylgt eftir, vekja þónokkra athygli. Þannig nam kostnaður af störfum Lúðvíks, sem Festi ber að standa straum af, um 2,8 milljónum króna á mánuði í fyrra. Lúðvík var skipaður kunnáttumaður að kröfu Samkeppniseftirlitsins, sem hafði lagst gegn tillögu félaganna um annan mann í starfið, en lögmaðurinn er einmitt góður vinur Ásgeirs Einarssonar, aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Styðja Ara og Elínu

Búast má við því að hrist verði upp í stjórn Borgunar á aðalfundi greiðslumiðlunarfélagsins í næstu viku í kjölfar kaupa Salt Pay á hlutafé félagsins. Nýir eigendur Borgunar eru sagðir vilja áfram hafa þau Elínu Jónsdóttur og Ara Daníelsson í stjórninni en þau voru á sínum tíma bæði tilnefnd í stjórnina af Íslandsbanka, fyrrverandi meirihlutaeiganda félagsins. Eins og fram hefur komið er fjármálaeftirlit Seðlabankans nú með til skoðunar stjórnarhætti í Borgun eftir að eftirlitinu barst nýverið erindi þar sem gerðar voru athugasemdir við meðal annars starfshætti stjórnarformanns félagsins.

Frá Kviku til Júpíters

Anna Rut Ágústsdóttir og Magnús Már Leifsson, sem hafa starfað hjá Kviku banka á síðustu árum, tóku nýverið til starfa hjá dótturfélaginu Júpíter. Sú fyrrnefnda, sem hefur starfað hjá Kviku og forverum bankans frá árinu 2007, meðal annars sem forstöðumaður viðskiptatengsla, gegnir stöðu forstöðumanns fjármála og rekstrar hjá Júpíter en Magnús Már er nýr yfirlögfræðingur sjóðastýringarfélagsins. Hann hafði áður starfað sem lögfræðingur hjá Kviku frá árinu 2016 og þar áður hjá LOGOS lögmannsþjónustu.