Tekin var ákvörðun um að loka landinu í reynd að fengnum níu mismunandi tillögum frá sóttvarnayfirvöldum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í viðtali við fjölmiðla að ákvörðun yrði tekin eftir hagræna greiningu á öllum valkostum, sem lá svo fyrir tveimur sólarhringum síðar. Varla þarf að taka fram að hagræn greining í þessum efnum er svo mörgum óvissuþáttum háð að útkoman verður í besta falli gagnslítil. En svona virkar stjórnsýslan í dag. Fá álit sérfræðinga og verja ákvarðanir svo með því – sama hversu ómerkilegt álitið er.

Ný barátta

Sóttvarnaraðgerðir ríkisstjórna um allan heim liggja nú eins og mara á hagkerfi heimsins. Í mars og apríl snerust aðgerðir um að minnka álag á heilbrigðiskerfi til þess að halda sjúkrahússinnlögnum og dauðsföllum í lágmarki. Það var skiljanlegt. Eftir þrýsting frá Kára Stefánssyni virðist baráttan hins vegar nú snúast um að halda smiti í lágmarki. Nánast öll lönd hins vestræna heims hafa bætt mjög í við að skima og því mun tilfellum óumflýjanlega fjölga. Nákvæmlega einn einstaklingur liggur á sjúkrahúsi núna á Íslandi. Talaði einhver um að færa markstangirnar til hliðar?

fundur i radherrabústadnum katrin jakobsdottir kari stefansson torolfur gudnason 16.jpg

Óþarfa pukur

Það vekur furðu að Fjármálaráðuneytið kjósi að halda spilunum þétt að sér þegar kemur að því að veita sjálfsagðar upplýsingar um rekstur Vínbúðarinnar í stað þess að sýna gott fordæmi. Vandinn er að Vínbúðin greinir ekki á milli sölu áfengis og tóbaks í ársreikningum. Það er eðlilegt að hægt sé að sjá hvernig ólíkum sviðum fyrirtækja reiðir af. Arnar Sigurðsson víninnflytjandi hefur fært sannfærandi rök fyrir því að tóbakssala niðurgreiði sölu á áfengi í verslununum ríkisins. Gagnsæi er nauðsynlegt í ríkisrekstri. Ef afkoman af sölu á áfengi og tóbaki er slíkt feimnismál, er spurning hvort það sé ekki betra að opinberir starfsmenn hætti að selja vörurnar?

arnar sigurðsson.jpg