Búast má við talsverðri uppstokkun á stjórn Íslandsbanka, sem er í eigu ríkissjóðs, á næsta aðalfundi sem áætlað er að fari fram 19. mars. Eftir tíu ára samfellda setu sem stjórnarformaður er Friðrik Sophusson, sem kom fyrst inn í stjórn bankans í janúar 2010, sagður vera á útleið og hið sama á við um Tómas Má Sigurðsson, sem settist í stjórnina fyrir um ári og er varaformaður, en hann tók við sem forstjóri HS Orku í ársbyrjun. Frekari breytinga má vænta á stjórninni en Bankasýslan vinnur nú að stöðuskýrslu um leiðir við sölu á hlutum ríkisins í bankanum. Fjármálaráðherra sagði í síðustu viku rétt að hefja undirbúning að sölu á Íslandsbanka í skrefum.

Hætta hjá Lykli

Sverrir Viðar Hauksson, sem hefur starfað sem sviðsstjóri viðskiptasviðs Lykils fjármögnunar frá árinu 2016, lét nýverið af störfum hjá eignaleigufyrirtækinu samfara skipulagsbreytingum sem stjórnendur TM, nýs eiganda Lykils, kynntu í lok síðasta mánaðar. Sverrir Viðar hafði starfað hjá Lykli og forvera þess frá árinu 2013, fyrst sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar félagsins. Sighvatur Sigfússon, sem hefur gegnt starfi sviðsstjóra fjármálasviðs Lykils, hætti einnig störfum hjá félaginu í liðnum mánuði.

Fréttablaðið/Ernir

Þarf að svara

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur fellt úr gildi ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að synja beiðni blaðamanns á Viðskiptablaðinu um aðgang að öllum fundargerðum Lindarhvols sem Bjarni Benediktsson ráðherra kom á fót 2016. Ráðuneytið bar því við að meðferð beiðninnar, sem fælist í að afmá upplýsingar úr fundargerðunum, myndi taka það langan tíma að það kæmi niður á öðrum lögbundnum störfum. Þannig væri fyrirsjáanlegt að afgreiðsla málsins útheimti í það minnsta 25 tíma vinnu. Nefndin tók þau svör ekki gild og lagði fyrir ráðuneytið að taka málið til nýrrar afgreiðslu.

Mynd/Fréttablaðið