Verðmötin sem eru gerð og skrifuð af Snorra Jakobssyni, fyrrverandi greinanda Capacent, eru í senn þægileg og áhugaverð lesning. Hann hefur lag á því að skrifa verðmötin svo hægt sé að lesa þau með fullri athygli. Eftir gjaldþrot Capacent hefur Snorri unnið að því að koma á fót nýju fyrirtæki sem ber nafnið Jakobsson Capital í kringum greiningarvinnu sína. Greiningarvinna Snorra var eins konar fyrirtæki innan Capacent og mun hafa skilað góðum afgangi ólíkt öðrum hlutum starfseminnar. Jakobsson Capital er ætlað að vera áframhald á því.

Björn Leví Ernir 5.12.19.jpg

Lokuð augun

Það féll illa í kramið hjá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, að ríkisstjórnin vildi ekki í ljósi aðstæðna í efnahagslífinu leggja fram fjármálaáætlun fyrr en í haust. Það er skiljanlegt því erfitt er að áætla tekjur og kostnað í þessu árferði. Píratinn vill frekar leggja fram áætlun sem líklegt er að verði röng í meginatriðum í stað þess að bíða til haustsins. Píratar hika ekki við að ana með lokuð augun út í óvissuna.

Páll_Gunnar_Pálsson.jpg

Hærra verð

Samkeppniseftirlitið trúir því ekki að viðskiptavinir kunni að njóta stærðarhagkvæmni í rekstri fyrirtækja. Það kom því ekki á óvart að eftirlitið undir forystu Páls Gunnars Pálssonar skyldi sekta Símann um hálfan milljarð fyrir að bjóða þeim sem kaupa mikla þjónustu af fyrirtækinu að horfa á enska boltann á betri kjörum en þeir sem eiga í litlum viðskiptum við fjarskiptarisann. Ákvörðunin mun koma illa við neytendur sem verða að borga meira fyrir afþreyinguna.