Fregnir bárust af því fyrr í vikunni að pitsustaðnum við Hverfisgötu 12, betur þekktur sem nafnlausi pitsustaðurinn, hafi verið lokað eftir fimm ár í rekstri. Á meðal þeirra sem sátu í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta var veitingastaðurinn hins vegar jafnan kallaður „Pizza Höft“. Það stafar af því að sérfræðingarnir, þar á meðal varaformaðurinn Sigurður Hannesson, komu upp með margar mikilvægustu hugmyndirnar að lausn haftavandans á meðan þeir sátu að snæðingi á pitsustaðnum síðla kvölds. Er því kannski við hæfi að í kjölfar þess að höftin fari hverfi Pizza Höft á braut.

Selur fasteignir í Flórída

Jón Gerald Sullenberger, fyrrverandi kaupmaður í Kosti, hefur vent kvæði sínu í kross í kjölfar þess að matvöruverslun hans var tekin til gjaldþrotaskipta og starfar nú sem fasteignasali í Coral Gables í Flórída. Jón Gerald starfar fyrir EWM Realty International en svo skemmtilega vill til að fyrirtækið er hluti af samstæðu Berk­shire Hathaway, fjárfestingafélags auðkýfingsins Warrens Buffett.

Óvænt inngrip

Síðustu inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði komu flatt upp á fjárfesta sem hafa hingað til ekki vanist því að bankinn láti til sín taka þegar krónan hreyfist um aðeins 0,6 prósent gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Venjulega hefur bankinn ekki gripið inn í fyrr en við um 2 prósenta hreyfingu. Það er því ekki nema von að margir klóri sér í hausnum og bíði eftir því að Már Guðmundsson seðlabankastjóri stígi fram og útskýri hvort um grundvallarstefnubreytingu sé að ræða af hálfu bankans.