Vinnu við sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem og endurskoðun á seðlabankalögunum miðar vel og ættu drög að frumvarpi að líta dagsins ljós á næstunni, eftir því sem Markaðurinn kemst næst. Eitt af því sem hefur verið rætt í þeirri vinnu er hvort skipa eigi sérstakan bankastjóra til þess að bera ábyrgð á fjármálaeftirliti innan sameiginlegrar stofnunar. Er Jón Þór Sturluson, núverandi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagður líta þá stöðu hýru auga.

Skuggastjórnun

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hljóp heldur betur á sig þegar hann hótaði því að taka 4,2 milljarða króna af fjármunum stéttarfélagsins úr stýringu hjá Kviku ef bankinn rifti ekki kaupum sínum á GAMMA. Fyrir utan hið augljósa, að samruni tveggja fjármálafyrirtækja kemur formanninum ekki við, þá eru afskipti hans ansi nálægt mörkum hins löglega. Fjármálafyrirtæki með milljarða í stýringu geta vitaskuld ekki látið einstaka aðila, viðskiptavini eins og VR eða aðra, segja sér fyrir verkum. Það er einfaldlega óheimilt. Formaðurinn má ekki haga sér eins og einhver skuggastjórnandi.

Loksins kjaftstopp

Vegtyllur hafa villt sumum í verkalýðsforystunni sýn. Vilhjálmur Birgisson fer fyrir afar litlu félagi þar í bæ. Hann telur að hann og fáeinir aðrir verkalýðsforkálfar hafi umboð til að semja skattastefnu Íslands. Flestir aðrir telja að það sé í verkahring þingmanna. Vilhjálmur fór á fund ríkisstjórnarinnar í gær og þegar í ljós kom að fjármálaráðherra kokgleypti ekki plagg Stefáns Ólafssonar og Indriða H. Þorlákssonar, ráðgjafa Eflingar, varð hann ævareiður og strunsaði út – algerlega kjaftstopp í fyrsta skipti.