Þess er beðið með mikilli eftirvæntingu að niðurstöður áreiðanleikakönnunar vegna yfirtöku Icelandair Group á WOW air liggi fyrir enda mun könnunin leiða í ljós hve stóran hlut Skúli Mogensen eignast í sameinuðu félagi. Vinna við könnunina er í fullum gangi en ráðgjafarfyrirtækið Deloitte og lögmannsstofan Logos munu hafa verið fengin til þess að annast hana. 

Eru vonir bundnar við að vinnunni ljúki sem allra fyrst en niðurstaða hennar mun ráða miklu um hvort kaupin nái fram að ganga.  

Sterkir hluthafar 

Það er ekki ofsögum sagt að hluthafahópur Íslenskrar orkumiðlunar, sem Magnús Júlíusson verkfræðingur og Bjarni Ármannsson fjárfestir stofnuðu í fyrra, hafi styrkst svo um munar fyrr á árinu. Magnús upplýsti í viðtali í Viðskiptamogganum fyrr í mánuðinum um að Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélag Vestmannaeyja hefðu lagt orkufyrirtækinu til aukið hlutafé. 

þeir sömu og telja í góðu lagi að Orkuveitan greiði arð bregðast margir hverjir ókvæða við þegar einkafyrirtæki gera hið sama. Tvískinnungurinn er stundum æpandi.

Félagið, sem var það fyrsta til þess að fá leyfi Orkustofnunar til að stunda raforkuviðskipti eftir að samkeppni um raforkusölu var bundin í lög, ætti þannig að hafa nægilegt bolmagn til að láta til sín taka á komandi árum. 

Tvískinnungur

Gagnrýni Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmanns í Orkuveitu Reykjavíkur, á arðgreiðslur Orkuveitunnar á síðasta ári vakti hörð viðbrögð. Þannig stigu meðal annars tveir stjórnarmenn fram og báru í bætifláka fyrir arðgreiðslurnar við góðar undirtektir borgarstjórnarmeirihlutans og fylgjenda hans. Sagði stjórnarformaðurinn til að mynda að arðgreiðslur væru eðlilegur þáttur í útgjöldum Orkuveitunnar.

Í umræðunni vakti það óneitanlega athygli að þeir sömu og telja í góðu lagi að Orkuveitan greiði arð bregðast margir hverjir ókvæða við þegar einkafyrirtæki gera hið sama. Tvískinnungurinn er stundum æpandi.