Í þriðja skiptið á rúmum þremur árum leitar Landsvirkjun nú eftir framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar- og markaðssviðs. Í febrúar 2013 var Björgvin Skúli Sigurðsson ráðinn í starfið, en hann hætti réttum fjórum árum síðar. Birna Ósk Einarsdóttir var ráðin í kjölfarið, en lét af störfum eftir nokkra mánuði í starfi. Stefanía G. Halldórsdóttir var svo ráðin í janúar 2018, en hún hefur nú einnig hætt og ráðið sig til fjárfestingafélagsins Eyris. Staðreyndin er auðvitað sú að áhersla Landsvirkjunar á að laða til landsins gagnaver og kísilframleiðslu hefur ekki gefist vel, þó að ytri aðstæður spili vissulega stórt hlutverk í þeirri þróun. Spurningin er auðvitað sú hvort það skrifist allt á viðskiptaþróunarsvið fyrirtækisins?

Sjaldséð lokun

Nýsköpunarmiðstöð verður lögð niður ef frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð, ráðherra nýsköpunarmála, nær fram að ganga. Fyrir utan þá sem eru á launaskrá Nýsköpunarmiðstöðvar voru allir sammála um að skynsamlegt væri að finna verkefnum stofnunarinnar nýjan farveg, enda barn síns tíma á margan hátt. Stóru fréttirnar eru þær að loks hefur einhver ráðamanna þjóðarinnar kjark til að leggja niður gagnslausa ríkisstofnun og spara með því hundruð milljóna króna á hverju ári. Auðvitað er leitt þegar störf eru lögð niður, en sérfræðingar í nýsköpun eiga væntanlega ekki erfitt með að búa sér til ný verkefni.

Þórdís Kolbrúna Reykfjörð, ráðherra nýsköpunarmála.
Fréttablaðið/Anton Brink

Langt yfir strikið

Verkalýðshreyfingin beitir ýmsum brögðum til þess að ná sínu fram á þessum síðustu og verstu. BHM reyndi að telja fólki trú um að hér væri „eftirspurnarkreppa“ til þess að réttlæta hækkun á atvinnuleysisbótum. Alþýðusamband Íslands, undir forsæti Drífu Snædal, notar orðið „ferðaþjónustukreppa“ til þess að koma í veg fyrir skynsamleg úrræði fyrir atvinnulífið, til dæmis lækkun tryggingagjaldsins. Vörumerkjafræðin eru notuð til þess að vekja upp villandi hughrif. ASÍ fór síðan svo langt yfir strikið í ýkjum og afvegaleiðingu að fæstir muna eftir öðru eins. Sambandið lagðist gegn lækkun tryggingagjalds þvert á atvinnugreinar þar sem tryggingagjaldið er „nánast eini skatturinn sem fyrirtæki greiða“. Málflutningur af þessu tagi fer langleiðina með að stimpla ASÍ út úr vitrænni umræðu um efnahagsmál.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.