Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra, mun færa sig um set um áramótin og taka til starfa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) í Washington D.C. Þar mun hann starfa sem skrifstofustjóri í kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá sjóðnum og sitja í framkvæmdastjórn AGS. Jón hefur verið á meðal æðstu stjórnenda Seðlabankans um áralangt skeið auk þess að hafa verið í framkvæmdahópi stjórnvalda um afnám hafta. Þá hefur hann síðustu ár einnig verið í stjórn gríska Fjármálastöðugleikaráðsins.

Bjartsýnin dugði ekki til

Andri Már Ingólfsson ferðafrömuður talaði digurbarkalega á síðum Markaðarins í september. Hann sagði að tekjur Primera Air, sem fór í greiðslustöðvun í gær, myndu að líkindum aukast um 8,3 milljarða króna á milli ára og stefndu í 32 milljarða króna í ár. Hann hélt því fram, sem enginn fótur reyndist fyrir, að félagið væri að ljúka við rúmlega fimm milljarða langtímafjármögnun. Efnahagur Primera Air var hins vegar viðkvæmur og eiginfjárhlutfallið einungis 9 prósent við árslok. Þótt Andri Már hafi átt betri daga á hann enn víðfeðmt ferðaskrifstofuveldi.

Í sitt hvoru liðinu

Margrét Kristín Blöndal tónlistarkona skaut föstum skotum á störf bróður síns, Sölva Blöndal. Hún er nýkjörin formaður Samtaka leigjenda og lét hafa eftir sér: „Hvergi í okk­ar heims­hluta er það látið viðgang­ast að stór leigufélög geti gert út á hús­næðis­vanda al­menn­ings eins og hér er látið óáreitt.“ Þekkt er að Sölvi hefur verið einn helsti sérfræðingur GAMMA um húsnæðismarkaðinn og situr í stjórn Almenna leigufélagsins. Vonandi sýna þau stillingu þegar leikar standa sem hæst í fjölskylduboðum og tónlist Quarashi er skrúfuð alla leið í ellefu í græjunum.