Það má segja að stjórnarkjörið sem er fram undan í Ice­landair, en þar er formaðurinn Úlfar Steindórsson á meðal frambjóðenda, marki ákveðin tímamót. Um árabil hefur eignarhald á skráðum félögum í Kauphöllinni verið þannig að lífeyrissjóðir fara samanlagt með stóran hlut á móti öðrum fagfjárfestum og einkafjárfestum. Lítið hefur farið fyrir almennum fjárfestum. Þessi samsetning hluthafa getur síðan endurspeglast í stjórnarkjöri viðkomandi félags þar sem fjársterkir einkafjárfestar stilla sér upp á móti lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðir áttu samanlagt um 53 prósenta hlut í Icelandair fyrir hlutafjárútboðið en hann hefur lækkað niður í liðlega 25 prósent á sama tíma og hluthöfum hefur fjölgað úr 3 þúsundum í 14 þúsund. Icelandair Group er orðið sannkallað almenningshlutafélag. Vonir standa til þess að almennir fjárfestar láti sig stjórnarkjörið varða, rýni í rökstuðning tilnefningarnefndar og leggi mat á skynsamlega samsetningu stjórnar með tilliti til hæfni og reynslu. Það er ágætis tilbreyting að viska fjöldans fái að ráða.

Kristinn Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður.

ADVEL skipt upp

Starfsemi lögmannsstofunnar ADVEL hefur verið skipt upp í tvö sjálfstæð félög eftir að hluti eigenda stofunnar, þeir Kristinn Hallgrímsson, Sigurður Valgeir Guðjónsson og Óskar Norðmann, hurfu á braut og starfa nú undir merkjum ARTA lögmenn. Kristinn hafði starfað sem lögmaður hjá ADVEL og fyrirrennurum stofunnar allt frá árinu 1988. Í eigendahópi ADVEL, sem samanstendur meðal annars af þeim Ragnari Guðmundssyni, Guðmundi Siemsen og Dóru Sif Tynes, eru nú fimm lögmenn eftir breytingarnar og hefur stofan nú flutt skrifstofur sínar á Hafnartorgið. ADVEL var fyrir í hópi umsvifameiri lögmannsstofa landsins en tekjur hennar á árinu 2019 námu liðlega 360 milljónum króna.

Leó Hauksson.


Leó til ÍV


Leó Hauksson, sem starfaði áður meðal annars hjá GAMMA Capital Management, hefur verið ráðinn til Íslenskra verðbréfa á svið markaðsviðskipta félagsins. Þar mun hann starfa á skrifstofu verðbréfafyrirtækisins í Kópavogi en ÍV er sem kunnugt með höfuðstöðvar sínar á Akureyri. Leó, sem er viðskiptafræðingur að mennt og hefur um 20 ára reynslu á fjármálamarkaði, hefur auk þess starfað hjá Kaupþingi, Arion banka, Íslandsbanka og Straumi fjárfestingarbanka.