Icelandair hefur ráðið Hákon Davíð Halldórsson sem forstöðumann framlínu á sölu- og þjónustusviði flugfélagsins. Hákon Davíð starfaði við þróun neytendaupplifunar (e. customer experience development) hjá Icelandair fram á mitt árið 2020 þegar hann tók við starfi forstöðumanns ferlaumbóta hjá Sýn. Hákon er með B.Sc. gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað lengst af sínum starfsferli í tækni- og fjarskiptageiranum, sem markaðsstjóri og í fleiri störfum hjá Opnum kerfum, sem sérfræðingur í CRM hjá Símanum og nú síðast í stafrænni umbreytingu hjá Sýn.

Líti í eigin barm
Í stað þess að leita að óvinum til að berjast við er oft heilbrigt að líta í eigin barm. VR með Ragnar Þór Ingólfsson í stafni sendi bönkum nýverið pillu um óhóflegan vaxtamun. Miðað við útreikninga VR ætti arðsemi bankanna að vera nokkur hundruð prósent sem er ekki raunin. Auk þess leiðir bankaskattur til meiri vaxtamunar en þekkist á hinum Norðurlöndunum. Hvað um það. Frá þjóðarsáttinni fyrir um þremur áratugum hafa laun hérlendis hækkað ríflega tvöfalt á við hin Norðurlöndin og verðbólgan sömuleiðis. Það kallar á hátt vaxtastig. Óskandi væri að verkalýðshreyfingin viðurkenndi sinn þátt í því.
