Ákveðnir fjölmiðlar, með Ríkisútvarpið í fararbroddi, halda áfram að mjólka mistúlkun á ummælum Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um hagsmunahópa. Þeir láta eins og þetta sé enn stórfrétt og reyna þannig að þröngva ferköntuðum kubbi í hringlaga gat. RÚV birti til að mynda viðtal við heimspeking í gær þar sem ummælin voru enn og aftur túlkuð þveröfugt við útskýringar seðlabankastjóra um að hann hefði verið að vísa til fjölbreytts hóps fyrirtækja, stofnana og samtaka. Hagsmunagæslan er víða. Í aðdraganda alþingiskosninganna mun Drífa Snædal, forseti ASÍ, hitta formenn stjórnmálaflokkanna til að ræða málefni kosninganna og áherslur flokkanna. Ekki er annars að vænta en að hagsmunir samtakanna verði þar ofar á dagskrá, sem eðlilegt er, en endilega hagsmunir heildarinnar.

Skuldafyllerí Sósíalista

Eitt af fyrstu kosningaloforðum Sósíalistaflokksins er faktískt að drekkja ríkissjóði, og þar með landsmönnum öllum, í skuldum. Fleiri slík loforð hljóta að fylgja innan tíðar. Það er jú háttur sósíalista. Komist flokkurinn til valda í næstu alþingiskosningum mun hann byggja íbúðir fyrir 650 milljarða með lánsfé. Sósíalistaflokkurinn, sem Gunnar Smári Egilsson kom á kortið, segir framkvæmdirnar munu ekki kalla á aukin ríkisútgjöld vegna þess að ódýr leiga muni standa undir kostnaðinum. Slíkur ríkisrekstur getur ekki klikkað. Það er hæpið að Sósíalistar verði valdamiklir á komandi þingi. Aftur á móti gætu aðrir vinstriflokkar þurft að stíga dansinn. Grunnvandinn á húsnæðismarkaði felst ekki í að lánin séu ekki nógu löng (sem er dýrkeypt) heldur lóðaskorti og hve dýrt er að byggja.

Gunnar Smári Egilsson kom Sósíalistaflokknum á kortið.
Ernir