Fjölmiðlafár varð eftir að Stundin birti viðtal við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra þar sem hann sagði að Íslandi væri „að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum“ og það væri „meiri háttar mál að lenda upp á kant við þá“. Ýmsir álitsgjafar og pistlahöfundar túlkuðu ummælin þannig að þau féllu inn í heimsmynd þeirra. Ásgeir væri þar að vísa til framgöngu eigenda Samherja. En blaðamaðurinn virtist ekki hafa spurt seðlabankastjóra hvað hann ætti nákvæmlega við með þessum ummælum. Eflaust hefði svarið verið margþættara en margir vilja halda. Enda er vald ekki bundið við auðlegð. Heimfæra mætti ummælin á fleiri hópa, svo sem hina nýju forystu verkalýðshreyfingarinnar, sem hefur reynt að nota vald sitt til þess að hafa áhrif á fjárfestingaákvarðanir lífeyrissjóða – og láta sér fátt um finnast þegar þeir eru ávíttir af Fjármálaeftirliti Seðlabankans. Áðurnefndir álitsgjafar skeyta þó engu um slíka misnotkun á valdi.

Heillaskref
Stjórnvöld hafa kynnt afléttingaráætlun, vörðurnar fjórar, sem tengja afléttingu takmarkana innanlands við markmið um bólusetningu. Þetta er mikið heillaskref og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á hrós skilið fyrir að standa fyrir slíkri áætlun. Ávinningurinn af fyrirsjáanleika einskorðast ekki við gerð rekstraráætlana hjá fyrirtækjum. Hann er ekki síður fólginn í því að fólk sjái fram á að lífið komist aftur í eðlilegt horf í náinni framtíð. En afléttingaráætlun er ekki fullnaðarsigur því stjórnvöld þurfa að standa í lappirnar til þess að áætlunin gangi eftir. Það er nefnilega svo að ýmsir kimar samfélagsins virðast áfram um að viðhalda þeim hughrifum fólks að enn sé þörf á takmörkunum óháð framgangi í bólusetningum.