Það kemur ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti að Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku, hafi ákveðið að gefa kost á sér fyrir uppstillingu Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar. Hún hefur látið að sér kveða í umræðunni um fjármál hins opinbera og málflutningurinn rímað vel við áherslur Samfylkingarfólks. Kristrún er sögð njóta stuðnings Loga formanns til að taka forystusæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna, sem yrði að líkindum á kostnað Ágústs Ólafs Ágústssonar. Hann gæti kannski fyllt í skarð Kristrúnar sem hagfræðingur Kviku.

Billegt

Oddný Harðardóttir sagði á Twitter í vikunni að faraldurinn sýndi mikilvægi opinbers rekstrar í heilbrigðisþjónustu, þar sem lönd með slíkt kerfi hefðu komið betur út en lönd með einkavætt heilbrigðiskerfi. Bretland (4. sæti), Spánn (6. sæti) og Ítalía (3. sæti) raða sér öll mjög ofarlega á lista yfir lönd með hæstu dánartíðnina á heimsvísu. Öll lönd státa af svo gott sem gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi fjármögnuðu af ríkinu. Óháð því hvaða rekstrarform er æskilegast, þá er billegt hjá Oddnýju að nýta sér hina afleitu stöðu sem COVID-19 hefur skapað til að fella dóma sem þessa.

Oddný Harðardóttir

Í Kauphöllina

Lífvænleg fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að leiða saman hesta sína til að skapa arðvænlegan rekstureftir faraldurinn. Vonandi munu forsvarsmenn þeirra sem eygja möguleika á að lifa af heimsfaraldurinn horfa til skráningar í Kauphöll. Heimilin studdu vel við bakið á Icelandair og munu fagna fleiri nýskráningum. Ekki síst eftir að frumvarp Bjarna Benediktssonar um allt að 600 þúsund króna skattaafslátt fyrir hjón af arði og söluhagnaði af skráðum félögum, náði fram að ganga.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Mynd/Fréttablaðið