Meðal þess sem kom fram í skýrslu OECD um samkeppnishæfni Íslands var sú staðreynd að rekstur flugstöðvar Leifs Eiríkssonar væri einhver sá óhagkvæmasti í Evrópu. Lagði OECD til að flugvöllurinn yrði seldur. Í skýrslunni kom líka fram að aðeins um fjórðungur flugfarþega í Evrópu ferðist um velli sem teljist vera ríkisreknir, en það hlutfall hefur jafnframt helmingast á örfáum árum. Ferðamálaráðherrann Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sagði í kjölfarið að henni hugnaðist þátttaka fjárfesta í rekstri flugvallarins, án þess þó að segja til um hvort ætti að selja hluta eða heild rekstrarins. Logi Einarsson var hins vegar fljótur að lýsa því yfir að aldrei mætti selja flugvöllinn. Nú liggur fyrir að Flugstöð Leifs Eiríkssonar þarf stóra fjárinnspýtingu. Vill Logi setja flugvöllinn á fjárlög?

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ríkisvætt eigið fé banka


Frá fjármálahruninu 2008 hafa yfirvöld á Vesturlöndum og víðar um heim reynt eftir fremsta megni að breyta fjármálakerfinu þannig að ríkið þurfi ekki að hlaupa undir bagga með því þegar á reynir. Ein ástæðan var sú að skapa ekki hættulegt fordæmi og freistnivanda. Bankamenn máttu ekki reiða sig á það að ríkið kæmi innistæðueigendum til bjargar. Einhverjir myndu færa rök fyrir því að eftirlitsstofnanir á Vesturlöndum, til að mynda Seðlabanki Íslands undir stjórn Ásgeirs Jónssonar, hefðu sett varhugavert fordæmi með því að koma í veg fyrir að bankar gætu greitt út arð. Að minnsta kosti hljóta almennir einkafjárfestar að hugsa sig tvisvar um áður en þeir fjárfesta aftur í banka. Að vissu leyti hefur eigið fé þeirra verið ríkisvætt.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Tvær ólíkar yfirtökur


Innan Kauphallarinnar hafa verið lögð fram tvö yfirtökutilboð sem fjárfestar þurfa að taka afstöðu til, eitt í Eimskip og annað í Skeljung. Tilboðin eru þó mjög ólík að því leyti að Samherji, sem Þorsteinn Már Baldvinsson stýrir, hefur lýst yfir að hann vilji helst ekki að hluthafar taki tilboðinu í bréf skipafélagsins. Það ætti að ganga eftir enda er gengi bréfanna komið upp í 205 krónur samanborið við yfirtökutilboð upp á 175 krónur. Í hinu tilfellinu þarf tilboðsgjafinn að reiða sig á vilyrði frá hópi hluthafa um að selja bréf sín á yfirtökugenginu 8,315. Tilboðsgjafinn vill ólmur ná ráðandi hlut í félaginu en vandinn er sá að markaðsgengið er orðið talsvert hærra en yfirtökugengið.