Lífeyrissjóðir og aðrir innlendir stofnanafjárfestar þurfa brátt að taka ákvörðun um hvort þeir taki þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group. Svo vægt sé til orða tekið er um að ræða mjög flókna ákvörðun. Þróun rekstrarskilyrða er ófyrirsjáanleg, meðal annars vegna aðgerða stjórnvalda, og erfitt er að leggja mat á áætlanir félagsins til næstu ára. Einstaklingum verður einnig gert kleift að kaupa hlutabréf í Icelandair fyrir minnst 100 þúsund krónur sem þykir nokkuð lág upphæð. Velta má upp þeirri spurningu hvort útboðið eigi yfirhöfuð að vera opið almenningi. Það eru ekkert sérstaklega góðar forsendur fyrir hinn almenna fjárfesti að meta Icelandair sem fjárfestingarkost. Hann nýtur til að mynda ekki sömu sérhæfðu ráðgjafar og sjóðirnir. Og jafnvel þótt hann fengi slíka ráðgjöf er óvissan gífurleg. Ákvörðun þess efnis er í höndum Fjármálaeftirlitsins, sem er stýrt af Unni Gunnarsdóttur, en stofnunin hefur, að minnsta kosti í orði, lagt áherslu á fjárfestavernd.

Samrunatregða

Fjöldi fyrirtækja sprettur upp í atvinnugrein sem er í miklum vexti. Þegar greinin nær jafnvægi er tilhneiging sú, samkvæmt fræðunum, að það fækki á markaðinum. Fyrirtæki sameinast til þess að skapa stærðarhagkvæmni. Það virðist hins vegar lítið ganga að ná fram miklum samlegðaráhrifum í ferðaþjónustu. Ekkert varð af sameiningu Allrahanda og Reykjavík Sightseeing, sem var tilkynnt sumarið 2019 og samþykkt af Samkeppniseftirlitinu sex mánuðum síðar. Fyrirhuguð sameining fjárfestingafélagsins Eldeyjar og Kynnisferða, sem var tilkynnt í byrjun maí, á enn eftir að ganga í gegn. Hvort töfina má rekja til eftirlitsyfirvalda eða viðsemjenda er ekki á hreinu. Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adven­tures, hitti naglann á höfuðið í viðtali við Markaðinn fyrir rúmu ári. Hann sagði að alltof margir væru fastir í því að hafa keypt fyrirtæki á ákveðnu verði og vildu nú fá sama verð þrátt fyrir að afkoman hefði hrunið. Persónur og leikendur þyrftu að leggja egóið sitt til hliðar.

Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adven­tures

Ásgeir til ASÍ

Alþýðusambandi Íslands hefur borist öflugur liðsauki en Ásgeir Sverrisson, sem hefur verið hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, mun taka þar til starfa á sviði samskiptamála. Ásgeir hefur mikla reynslu úr blaðamennsku en hann starfaði um langt skeið hjá Morgunblaðinu, meðal annars sem fréttastjóri erlendra frétta, og þá var hann ritstjóri Blaðsins. Ásgeir fer í tímabundið leyfi frá störfum sínum hjá ríkislögreglustjóra meðan hann verður hjá ASÍ.