Uppátæki finnska bankans Aalandsbanken er umhugsunarvert. Aalandsbanken mun greiða út arð sem er fjórum sinnum hærri en hámarkið sem Evrópski seðlabankinn miðar við og finnska fjármálaeftirlitið segist ekki geta komið í veg fyrir það. Þá vaknar sú spurning hvort Seðlabanki Íslands, undir stjórn Ásgeirs Jónssonar, muni fylgja Evrópska seðlabankanum og gefa út tilmæli um strangt þak á arðgreiðslur íslensku bankanna, sem eru mun betur fjármagnaðir en flestir evrópskir bankar, og þá eins hvort íslensku bankarnir ætli sér að fara eftir slíkum tilmælum. Ljóst er að innan bankakerfisins er gnægð fjármagns sem vill leita út. Hluthafar Arion banka vænta þess að fá eitthvað fyrir sinn skerf og ríkissjóður gæti viljað taka væna summu út úr Íslandsbanka áður en bankinn verður seldur.

Hjónavíxlun

Endurskipulagning Keahótela hafði í för með sér breytingar á stjórninni. Clare Scott Bert­ucio, hefur tekið sæti eiginmanns síns, Jonathans B. Rubini, eins ríkasta manns Alaska og eiganda JL Properties, sem er hluthafi í Keahótelum, en Rubini var áður stjórnarformaður hótelkeðjunnar. Hugh Short, forstjóri bandaríska fjárfestingarfyrirtækisins PT Capital, sem er einnig hluthafi í Keahótelum, tekur við stjórnarformennskunni. Þá hefur Fannar Ólafsson fjárfestir vikið úr stjórn en í stað hans kemur Magnús Magnússon, sem starfar á fyrirtækjasviði Landsbankans. Bankinn eignaðist þriðjungshlut í hótelkeðjunni með skuldbreytingu á lánum, gegn því að hluthafar legðu hótelkeðjunni til hlutafé sem nam á þriðja hundrað milljónum króna.

Draumurinn lifir enn

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, heldur fast í gamla drauma samvinnuhreyfingarinnar í blaðagrein. Hann sagði æskilegt að leiðandi bankar væru sjálfeignarstofnanir, eða í reynd sparisjóðir. Sparisjóðir geta ekki keppt við einkabanka. Stjórnendur þeirra skortir aðhald frá eigendum. Því verður reksturinn óhagkvæmari og lánakjör verri, sem leiðir til þess að viðskiptavinir leita annað. Þá eiga sjálfseignarstofnanir örðugt með að auka við „hlutafé“ til að fjármagna vöxt eða standast efnahagsáföll. Tvö blómaskeið sparisjóða hérlendis má rekja til þess að bankar voru ekki til eða starfsemi þeirra var heft. Stundum reynast draumar óraunhæfir.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins.