Góð þátttaka var hjá lífeyrissjóðum í nýafstöðnu útboði Síldarvinnslunnar – aðeins Birta og Lífsverk tóku ekki þátt – en liðlega helmingur þeirra sat engu að síður eftir með sárt ennið og þurfti að sæta umtalsverðum skerðingum á tilboðum sínum eða, sem var í fleiri tilfellum, fékk ekkert úthlutað. Í þeim hópi var LSR, stærsti lífeyrissjóður landsins, sem skilaði inn tilboði undir 60 krónum á hlut, og fékk því engin bréf í félaginu, en það reyndist endanlegt útboðsgengi í tilfelli fagfjárfesta. Þótt hlutabréf Síldarvinnslunnar verði ekki tekin til viðskipta í Kauphöllinni fyrr en á morgun, fimmtudag, þá hafa verið viðskipti með bréf í félaginu eftir að útboðinu lauk fyrir tveimur vikum og hefur gengið í þeim í einhverjum tilfellum verið 64 krónur á hlut.

Hrönn Sveinsdóttir, nýr stjórnarformaður Kviku eignastýringar.


Hrönn inn fyrir Guðlaugu


Gerð hefur verið breyting á stjórn Kviku eignastýringar en Guðlaug Kristinsdóttir, forstjóri Stekks fjárfestingafélags, sem hefur setið í stjórn félagsins og forvera þess um árabil, nú síðast sem stjórnarformaður, hefur sagt sig úr stjórninni. Í hennar stað hefur komið Hrönn Sveinsdóttir, sem er meðeigandi Smart Finance og var um langt skeið framkvæmdastjóri hjá Sýn, og hefur hún jafnframt verið kjörin stjórnarformaður sjóðastýringarfyrirtækisins en Hrönn sat áður í stjórn Kviku banka á árunum 2017 til 2021. Fyrir í stjórn Kviku eignastýringar, sem var með eignir í stýringu upp á rúmlega 360 milljarða í árslok 2020, eru Óttar Már Ingvason og Andri Vilhjálmur Sigurðsson.

Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Hart deilt


Play hefur fengið óblíðar viðtökur hjá forystu ASÍ sem hefur hvatt alla landsmenn og fjárfesta til að sniðganga flugfélagið. Drífa Snædal, forseti ASÍ, dró ekkert undan í ásökunum sínum þegar hún og Birgir Jónsson, forstjóri Play, tókust á í útvarpsþættinum Sprengisandi um helgina og skipti þá engu að búið sé að sýna fram á að forsendur að baki útreikningnum ASÍ um meint undirboð launa Play standist enga skoðun. Vandi Play er að samtal við ASÍ mun tæplega skilu neinu, fólkið þar á bæ veigrar sér ekki við því að snúa út úr og valda fyrirtækinu sem mestum skaða, en á sama tíma horfir flugfélagið til skráningar á markað í næsta mánuði þar sem ætlunin er að sækja meiri fjármuni frá fjárfestum í því skyni að breikka hluthafahópinn. Hætt er við því að hinar harðvítugu deilur við ASÍ kunni að fæla suma fjárfesta frá því að koma að félaginu eins og sakir standa.

Skotsilfur birtist í Markaðinum í Fréttablaðinu á miðvikudögum.