Dómurinn sem féll í máli Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP banka, í Strassborg í gær er enn einn áfellisdómur Mannréttindadómstóls Evrópu yfir íslenskum dómstólum og þá sérstaklega yfir málsmeðferð þeirra í hinum svonefndu hrunmálum. Ekki eru tveir mánuðir liðnir frá því að dómstóllinn taldi íslenska ríkið hafa brotið gegn rétti sakborninga í Al-Thani málinu til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli og þá er skemmst að minnast nýlegra sigra Ragnars Þórissonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fyrir sama dómstóli. Vænta má niðurstaðna í fleiri áþekkum málum á næstunni.

Fréttablaðið/Stefán

Ari eflir tengslin við Rússa

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, hefur verið kjörinn formaður hins nýstofnaða rússnesk-íslenska viðskiptaráðs en stofnfundur ráðsins fór nýverið fram. Markmið ráðsins er að efla og viðhalda viðskiptatengslum á milli Íslands og Rússlands en ljóst er að í þeim efnum er við ramman reip að draga. Rússar hafa enda lagt viðskiptabann á íslensk matvæli allt frá árinu 2015 og er ekki útlit fyrir að það breytist í bráð.

Michele Ballarin
D.A. Peterson for The Washington Post/Getty Images

Er Roosevelt

Margt er á huldu um bandarísku athafnakonuna Michele Ballarin og áform hennar um endurreisn WOW air eftir að hún keypti helstu eignir úr þrotabúi hins fallna félags. Ballarin þessi heitir raunar Michele Roosevelt Edwards en hún tók upp nafnið Ballarin þegar hún giftist fyrri manni sínum. Hún á að baki skrautlegan feril, meðal annars sem fasteignasali, fjárfestir, hestaræktandi og hergagnaframleiðandi en mesta frægð hefur hún getið sér fyrir tilraunir sínar til þess að miðla málum á milli sómalískra mannræningja og úkraínskra stjórnvalda um síðustu aldamót.