Fréttir af bóluefni hafa keyrt upp hlutabréfaverð Icelandair sem stendur nú í 1,7 krónum á hlut samanborið við útboðsgengið 1. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, sem bætti við sinn hlut í útboðinu, hefur á undanförnum dögum og vikum selt hluti í Icelandair með mörg hundruð milljóna króna hagnaði. Skörp hækkun bréfanna skapar þreifanlegan ávinning fyrir LSR en er umhugsunarefni fyrir sjóðfélaga Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem tók ekki þátt í útboðinu. Vitaskuld voru málefnalegar ástæður fyrir því að fjárfesta ekki í Icelandair og fleiri lífeyrissjóðir en LIVE ákváðu að sitja hjá. En ólíkt LIVE þá lék enginn vafi á því hjá hinum sjóðunum að stjórnir þeirra tóku sjálfstæða ákvörðun. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, beitti grímulausum þrýstingi fyrir opnum tjöldum og jafnvel þó að hann hefði dregið yfirlýsingar sínar til baka var skaðinn skeður. Óhjákvæmilegt var að grunsemdir myndu vakna um sjálfstæði stjórnarmanna LIVE. Afskipti hans kunna að hafa reynst sjóðfélögum dýrkeypt.

Horfa til Arnarlax

Fjárfestar vonast til þess að Arnarlax verði skráð tvíhliða í Kauphöll Íslands á nýju ári samhliða því að félagið færi sig yfir á Aðallistann í Noregi. Það er þrennt sem einkum er horft til; þrír íslenskir hluthafar, þar á meðal Kjartan Ólafsson stjórnarformaður, eru á meðal þeirra tíu stærstu eftir vel heppnað hlutafjárútboð á dögunum. Ef fram fer sem horfir verður fiskeldi í náinni framtíð ein af burðarstoðunum í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Auk þess vex fyrirtækið hratt um þessar mundir en frá bankahruni hafa vaxtarfélög ekki sóst eftir skráningu í Kauphöllina sem skerðir verulega valkosti fjárfesta. Eins er líklegt að Marel muni fyrr en síðar hverfa af íslenska hlutabréfamarkaðnum og þá munar um að fá félag á markað sem er metið á 49 milljarða króna í norsku Kauphöllinni.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Vagg og vitleysa

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, fullyrti að RÚV væri vagga upplýsingaflæðis á Íslandi. Því yrði að ausa meira fé í stofnunina. Það er rangt. RÚV hefur margoft misstigið sig og flutt rangar fréttir án þess að leiðrétta fréttaflutninginn. Nærtækt dæmi fyrir þingmanninn er að RÚV gerði því góð skil að farið væri fram á að Landspítalinn skæri niður í rekstrinum um 4,3 milljarða. Rétt fjárhæð er 400 milljónir. RÚV sá ekki sóma sinn í að koma skikk á eigin upplýsingaóreiðu. Sannleikurinn er sá að fjölbreytt fjölmiðlaflóra er bóluefnið gegn upplýsingaóreiðu. Ekki RÚV.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG.
Fréttablaðið/Anton Brink