Ljóst þótti eftir að Benedikt Gíslason var ráðinn bankastjóri Arion banka að hann væri mjög áfram um að fá Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Kviku, til liðs við sig. Það gekk eftir og hefur Ásgeir, sem hefur síðustu ár verið lykilmaður í uppbyggingu fjárfestingabankans, verið ráðinn aðstoðarbankastjóri Arion. Þeir Benedikt þekkjast vel en þeir störfuðu saman hjá MP banka og í framkvæmdahópi um losun hafta. Viðbrögð markaðarins við ráðningu Ásgeirs létu ekki á sér standa og lækkaði markaðsvirði Kviku um 800 milljónir í viðskiptum daginn eftir á meðan virði Arion hækkaði um 5 milljarða.

Ólafur Sigurðsson
Fréttablaðið/Ernir

Dramatísk sveifla

Hugmyndin með þjóðhagsvarúð er að stjórnvöld geti unnið gegn hagsveiflunni í stað þess að magna hana. Margir hafa áhyggjur af því að íslenskum stjórnvöldum sé nú að takast hið síðarnefnda: að dýpka samdráttinn sem er hafinn enn frekar. Nýlegar ákvarðanir fjármálastöðugleikaráðs um að hækka sérstakan sveiflujöfnunarauka bera þess til að mynda merki að ráðið sé að berjast við uppsveiflu eftir að niðursveifla er hafin. Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segist á Facebook-síðu sinni vera verulega hugsi yfir stöðunni. Þrátt fyrir að hagfræðingar Seðlabankans telji sig hafa fundið taktinn í íslensku fjármálasveiflunni gruni hann að sveiflan verði eftir sem áður dramatísk upp að vissu marki.

Tryggvi Þorgeirsson
Fréttablaðið/Anton Brink

Nýr formaður

Tryggvi Þorgeirsson, læknir og einn stofnenda SidekickHealth, hefur verið skipaður stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs til næstu tveggja ára. Hann tekur við formennskunni af Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgðir fyrirtækja, sem gegnt hefur starfinu frá 2015.