Heimsókn Mervyn Kings, fyrrverandi bankastjóra Englandsbanka, til Íslands í liðinni viku vakti athygli en í erindi sem hann flutti hrósaði hann stjórnvöldum fyrir aðgerðir sínar eftir fall bankanna. King var heiðursgestur í boði sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri hélt á miðvikudag í gestahúsnæði Seðlabankans við Ægisíðu en aðrir gestir voru meðal annars tengdir bankanum og peningastefnunefndinni ásamt Ásgeiri Jónssyni, einum umsækjenda um embætti seðlabankastjóra. Það sama gerði einnig Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, sem hélt boð King til heiðurs á laugardagskvöld en þeir áttu sem kunnugt er í talsverðum samskiptum, meðal annars vegna Icesave-reikninganna alræmdu, í aðdraganda fjármálakreppunnar.

Mark Levick.

Stýrir Alvotech

Mark Levick, sem hefur starfað í lyfjageiranum í tvo áratugi, síðast sem yfirmaður þróunar hjá lyfjarisanum Sandoz, hefur verið ráðinn forstjóri líftæknifyrirtækisins Alvotech. Hann tekur við starfinu í ágúst af Rasmus Rojkjaer sem hefur gegnt forstjórastarfinu síðustu tvö ár. Alvotech, sem er að stærstum hluta í eigu fjárfestingasjóðs undir forystu Róberts Wessman, hóf nýverið klínískar rannsóknir á sínu fyrsta lyfi.

Lísa Björk Óskarsdóttir

Tekur við Nathan & Olsen

Ari Fenger, einn eigenda Nathan & Olsen, er hættur sem framkvæmdastjóri heildverslunarinnar og tekur Lísa Björk Óskarsdóttir, áður framkvæmdastjóri Provision og rekstrarstjóri hjá ÍSAM, við starfinu í hans stað. Ari verður áfram forstjóri móðurfélagsins 1912. Móðurfélagið er ein stærsta heildverslun landsins en það velti um sjö milljörðum árið 2017.