Ragnar Þór Ingólfsson er fullyrðingaglaðari en flestir leyfa sér. Eftir að Festi keypti Íslenska orkumiðlun sagðist Ragnar ætla að senda frá sér uppskriftina að því hvernig „sjallarnir græða 850 milljónir og grilla á kvöldin“ með því að selja almenningshlutafélagi þriggja ára fyrirtæki „sem framleiðir ekki neitt“, á þrítugfaldri EBITDA. Á aðalfundi Festar á mánudaginn í liðinnu viku kom hins vegar í ljós að kaupin miðuðu við EBITDA upp á 60 milljónir árið 2020 sem síðan endaði í 105 milljónum. Stjórnarformaður Festar sagði að horfur væru á því að afkomutalan færi upp í 150 milljónir króna á þessu ári. Niðurstaðan er sem sagt sú að kaupandinn getur verið hæstánægður með kaupverðið. Það er frekar seljandinn sem nagar sig í handarbökin ef eitthvað er. Enn er beðið eftir uppskriftinni sem Ragnar lofaði.

Vegferð SKE
Það sætir tíðindum þegar stjórnendur fyrirtækja leyfa sér að gagnrýna störf Samkeppniseftirlitsins, sem Páll Gunnar Pálsson stýrir, eins og stjórnarmaður Festar gerði á aðalfundi smásölufélagsins í byrjun síðustu viku. Flestir veigra sér við að gagnrýna eftirlitsstofnunina enda eru völd hennar í viðskiptalífinu mikil. Ekki er fótur fyrir allri gagnrýni, oft litast hún af hagsmunum, en í tilfelli Festar er ekki nema von að margir séu hugsi yfir framferði stofnunarinnar sem þráast við og vísar allri ábyrgð á stjórnendur fyrirtækjanna. Hér er bæði vísað til kostnaðarins sem hefur fallið á Festi vegna framfylgdar á sáttinni við Samkeppniseftirlitið og handstýringar eftirlitsins á verslunarrekstri á Hellu. Á einhverjum tímapunkti hlýtur pólitíkin að láta sig varða þessa stöðu sem er komin upp í samskiptum atvinnulífsins og mikilvægrar eftirlitsstofnunar eins og Samkeppniseftirlitið vissulega er.

Frá Sýn til Skeljungs
Jóhanna Margrét Gísladóttir, sem starfaði um margra ára skeið hjá fjölmiðlafyrirtækjunum Sýn og 365 miðlum, hefur tekið til starfa sem verkefnastjóri hjá Skeljungi. Jóhanna, sem er menntaður rekstrarverkfræðingur frá Duke-háskólanum í Bandaríkjunum og Háskólanum í Reykjavík, var síðast dagskrárstjóri Stöðvar 2 en lét þar af störfum undir lok síðasta árs og þá var hún meðal annars framkvæmdastjóri sjónvarpssviðs á sínum tíma hjá 365.