Ef fram fer sem horfir verður árið 2019 árið þar sem aðeins verða afskráningar úr Kauphöllinni en engar nýskráningar. Stórir hluthafar í Heimavöllum vilja sem kunnugt er taka leigufélagið af markaði og í ljósi afar dræms gengis félagsins frá skráningu síðasta sumar verður að teljast líklegt að aðrir hluthafar leggi blessun sína yfir þá ráðagerð. 

Að mati kunnugra kæmi ekki á óvart að fleiri skráð félög kysu að fara sömu leið. Eitt er ljóst að Páll Harðarson og félagar í Kauphöllinni eiga mikið verk fyrir höndum að efla tiltrú fjárfesta á markaðinum. 

Óvenjuleg hækkun 

Það sætti tíðindum á föstudag í síðustu viku þegar hlutabréf í Heimavöllum snarhækkuðu um fjögur prósent í verði – daginn eftir að tilkynnt var um starfslok forstjórans Guðbrands Sigurðssonar – enda eru viðskipti með bréf í leigufélaginu alla jafna fremur daufleg, veltan lítil og nokkurra prósenta verðhækkanir afar sjaldséðar. 

Ýmsar sögur fóru á kreik um daginn en fæstir bjuggust hins vegar við því að eftir lokun markaða yrði tilkynnt um að hluthafar hefðu farið fram á afskráningu félagsins. Og eins og skiljanlegt er ruku bréfin aftur upp þegar markaðir voru opnaðir á nýjan leik á mánudag. 

Rekur bensínstöðvarnar 

Fastlega er búist við því að kaup Einars Arnar Ólafssonar, fjárfestis og fyrrverandi forstjóra Skeljungs, á fimm eldsneytisstöðvum, ásamt vörumerkinu Dælunni, af N1 gangi endanlega í gegn á allra næstu vikum þegar samþykki Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir. 

Heimildir Markaðarins herma að Einar Örn hafi fengið félaga sinn Jón Pál Leifsson, fyrrverandi markaðsstjóra Skeljungs, til þess að stýra rekstri Dælunnar en þeir störfuðu saman hjá Skeljungi á árunum 2009 til 2014.