Andri Guðmundsson fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar hjá Fossum mörkuðum, hefur ráðið sig til að sinna viðskiptaþróun hjá hátæknigróðurhúsinu Vaxa sem stundar lóðréttan landbúnað. Fyrirtækið horfir til tækifæra á Íslandi og erlendis. Andri á 15 prósenta hlut í Vaxa en stærsti hluthafinn er félag á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar, Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar með 40 prósenta hlut. Andri verður Fossum mörkuðum áfram innan handar sem ráðgjafi en hann var ef til vill atkvæðamestur í útgáfu grænna skuldabréfa á Íslandi. Andri hefur starfað hjá Fossum mörkuðum í sjö ár, fyrst á vettvangi stjórnar en var um árabil með skrifstofu í Stokkhólmi.

Milla aftur til Nordic Visitor

Kristjana Milla Snorradóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri mannauðs hjá Nordic Visitor og Terra Nova. Milla er með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) og B.Sc. í iðjuþjálfunarfræðum. Áður starfaði hún sem mannauðsstjóri Borgarleikhússins, þar áður sem mannauðs- og rekstrarstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og þá var hún einnig mannauðsstjóri hjá Nordic Visitor til loka árs 2018. Eins og fram kom í umfjöllun Markaðarins í sumar verða ferðaskrifstofurnar Nordic Visitor, Iceland Travel og Terra Nova þriðja stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, þegar kaup Nordic Visitor á Iceland Travel ganga í gegn

Kristjana Milla Snorradóttir tekur við sem framkvæmdastjóri hjá Nordic Visitor.
Mynd/Aðsend