Fjárfestingarfélagið Stoðir, sem er stýrt af Jóni Sigurðssyni, hefur á skömmum tíma orðið umsvifamesti einkafjárfestirinn á hlutabréfamarkaði en félagið er í hópi stærstu hluthafa í Símanum, TM og Arion banka. Í vikunni bættu Stoðir enn við hlut sinn í Símanum – hann nemur núna um ellefu prósentum – en félagið hóf fyrst að fjárfesta í fjarskiptafyrirtækinu í apríl. Á markaði telja sumir að Stoðir sjái tækifæri í afskráningu fyrirtækisins á markaði og í kjölfarið að ráðast í endurskipulagningu á rekstri samstæðunnar, en Síminn er meðal annars eigandi Mílu.

Ragnar Guðmundsson hætti sem forstjóri Norðuráls í maí.
Fréttablaðið/GVA

Þrír hættir

Miklar breytingar hafa orðið á skömmum tíma í efstu lögum stóriðju á Íslandi. Þannig hafa þrír forstjórar stærstu stóriðjufyrirtækja landsins látið af störfum á þremur mánuðum. Ragnar Guðmundsson hætti sem forstjóri Norðuráls í maí, síðan Gestur Pétursson sem forstjóri Elkem en hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Veitna. Í lok júlí var síðan tilkynnt að Magnús Þór Ásmundsson hefði óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri hjá Alcoa Fjarðaáli. Nóg er því af starfstækifærum fyrir þá sem vilja stýra stóriðjufyrirtæki á Íslandi.

Stefán Melsted til hægri ásamt Sigurgísla.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Stefán opnar nýjan stað

Stjörnukokkurinn Stefán Melsted, best þekktur fyrir að hafa ásamt Sigurgísla Bjarnasyni stofnað hinn vinsæla veitingastað Snaps á Óðinsgötu, hyggur á opnun nýs veitingastaðar á næstunni og hefur augastað á plássi í miðbænum. Þeir Stefán og Sigurgísli minnkuðu hlut sinn verulega í Snaps fyrr á árinu og koma ekki lengur að daglegum rekstri. Veitingastaðurinn hefur enn ekki verið nefndur, en mun einblína á „take-away“ þjónustu og meðal annars bjóða upp á pítsur með haustinu.