Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Miðvikudagur 25. nóvember 2020
06.30 GMT

Vaxtarsjóðurinn Scottish Equity Partners (SEP), sem fjárfesti meðal annars í Skyscanner árið 2007, hefur fjárfest fyrir á annan milljarð króna í hugbúnaðarfyrirtækinu Dohop. Fyrir vikið eignaðist sjóðurinn um 30 prósenta hlut í íslenska fyrirtækinu.

Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, segir að horft sé til þess að nýta fjármagnið til að styðja við áframhaldandi vöxt og ráða 50-60 starfsmenn á næstu tveimur árum. Hugbúnaðarþróun félagsins verði áfram að stórum hluta hérlendis. Starfsmenn eru nú 45.

Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Dohop þróar hugbúnað fyrir flugfélög. Í grunninn hjálpar hugbúnaðurinn flugfélögum að selja tengiflug á heimasíðum sínum. Hér á landi er fyrirtækið þekkt fyrir heimasíðu sína þar sem hægt er að leita að flugi víða um heim. Á undanförnum árum hefur áherslan flust af rekstri heimasíðunnar yfir í að þróa hugbúnað þar sem fólk leitar að tengiflugi á heimasíðu flugfélaga. Samningur við EasyJet árið 2017 markaði ákveðin þáttaskil hvað það varðar.

Þurftu að sýna biðlund

Davíð segir að ferlið við að afla aukins hlutafjár hafi tekið töluverðan tíma. Starfsmenn Dohop hafi hitt fulltrúa SEP í október 2019, kaupskilmálar verið undirritaðir í desember og ljúka átti við samninginn í lok mars. Þá hafi COVID-19 breiðst yfir heimsbyggðina og SEP ákvað að bíða með fjárfestinguna í ljósi óvissu í ferðaþjónustu.

„Við reyndum að halda sambandi við þá og það tókst með herkjum. Rætt var við starfsmenn SEP á þriggja til fjögurra vikna fresti. Í september var svo komið að annaðhvort yrði að ganga til samninga eða við myndum leita til annarra fjárfesta. SEP sýndi því skilning, við skrifuðum undir annan samning um helstu kaupskilmála og málinu lauk tveimur mánuðum seinna,“ segir hann.

Kaupverðið lækkaði

Davíð segir að kaupverðið hafi lækkað töluvert á milli samninga. „Það er fullkomlega eðlilegt. Horfur voru á að Dohop myndi velta 1,2 til 1,5 milljörðum króna í ár. Það er rúmlega tvöföldun á milli ára. Veltan nam um 120 milljónum króna í janúarmánuði en svo kom kórónafaraldurinn og tekjurnar fóru langleiðina í núll. Fjárfestarnir líta svo á að fólk vilji ferðast á nýjan leik þegar COVID-19 er á bak og burt. Þeir horfa til lengri tíma,“ segir hann.

Fólk hefur lítið ferðast vegna COVID-19. Það hefur mikil áhrif á tekjur Dohop.
Fréttablaðið/Valli

Flestir starfsmenn fyrirtækisins fóru á hlutabótaleiðina í vor, enda félagið nánast tekjulaust, en komu að fullu til baka 1. september. „Við tókum slaginn: Það er nóg af tækifærum og til að vinna að þeim þurfum við á öllu okkar fólki að halda. Jafnvel þótt tekjurnar hafi þurrkast út er tækifærið sem við stöndum frammi fyrir stærra en áður. Eftirspurnin eftir hugbúnaðinum hefur aukist. Við hjálpum flugfélögum að selja tengiflug og þau vilja nýta COVID til að endurskipuleggja innviði og auka hagkvæmni þeirra. Við vorum að ljúka við fjórða samninginn við nýjan viðskiptavin frá því að COVID-19 hófst. En tekjumódelið okkar er með þeim hætti að við fáum einkum greitt þegar ferðamenn bóka flug,“ segir Davíð.

Fengu fjármögnun í sumar

Dohop aflaði 200 milljóna króna fjármögnunar í sumar með breytanlegu skuldabréfi. Núverandi hluthafar og nýir stóðu að fjármögnuninni. Skuldabréfinu var breytt í hlutafé samhliða því að SEP lagði hugbúnaðarfyrirtækinu til hlutafé.

Fyrir hlutafjáraukninguna var enginn einn hluthafi áberandi stór. Stærsti hluthafinn, Vivaldi Ísland, sem er í eigu Jóns S. von Tetzchner, átti 15 prósenta hlut og Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður, átti rúmlega níu prósenta hlut.

„Okkur vantaði einmitt öflugan kjölfestufjárfesti sem er áhugasamur um reksturinn og hefur skoðanir á því sem er gert,“ segir Davíð.

Nú verða þau tímamót í sögu Dohop að meirihluti stjórnarmanna verður erlendur. Við kaup SEP sest Stuart Paterson í stjórn félagsins. Í vor kom Maxwell Jon Reilly, sem starfað hefur sem ráðgjafi í flugiðnaði í 30 ár, í stjórn en árið 2018 tók Andrew Middleton, Commercial Director hjá easyJet, sæti í stjórn.

Vinna með EasyJet

Fram kom í Markaðnum sumarið 2018 að breska lággjaldaflugfélagið hefði lánað Dohop 2,25 milljónir evra. Hægt væri að breyta láninu í hlut í Dohop við lok lánstímans. Flugfélagið aðstoðar viðskiptavini við að finna tengiflug í gegnum önnur flugfélög. Tæknin er knúin af Dohop.

Breska ráðgjafarfyrirtækið Strata Partners í London aðstoðaði Dohop við að fjármagna reksturinn. „Þeir bentu okkur á lista af 70 mögulegum sjóðum og kynntu okkur meðal annars fyrir SEP. Það er afar verðmætt,“ segir hann.

Athugasemdir