Samtök sjómanna á uppsjávarskipum í Skotlandi (Scottish Pelagic Fishermen´s Association - SPFA) hafa hvatt heildsala og matvöruverslanir þar í landi til þess að stöðva kaup á makríl veiddum af norskum og færeyskum skipum, en bæði lönd ákváðu einhliða að auka aflahlutdeild sínum fyrir makrílvertíðina í sumar. Ekki náðist samkomulag um skiptingu afla á síðasta fundi strandríkja í Norður-Atlantshafi frekar en síðustu ár.

Noregur og Færeyjar hafa bæði tekið ákvörðun um að auka aflahlutdeild sína um 55 prósent frá síðasta ári. Ísland hefur á síðustu árum ekki náð neinum samningum um makrílveiðar og staðið utan samkomulags Noregs, Færeyja og ESB. Fyrr í vikunni úthlutaði Kristján Þór Júlíusson 140 þúsund tonnum til íslenskra útgerða, sem er jafmikið og árið 2019 en um 12 þúsund tonnum minna en í fyrra.

Noregur hefur stutt að aflaheimildir í makríl séu bundnar við hafsvæði strandríkja, þrátt fyrir að norskar útgerðir veiði æ minna af markíl í norskri lögsögu.

Í umfjöllun Intrafish um málið er haft eftir SPFA að árið 2017 hafi Noregur veitt um 69 prósent makríls í eigin lögsögu og 21 prósent í breskri lögsögu. Á síðasta ári hafi þetta snúist við og sömu hlutfall staðið í tæplega 16 og 84 prósentum.

Forsvarsmenn SPFA vilja að málið sé tekið fyrir á æðstu stigum svo að Norðmenn og Færeyingar láti af veiðum í breskri lögsögu.