Skortur á smurolíum er yfirvofandi á heimsvísu, að sögn Þórðar Guðjónssonar framkvæmdastjóra sölusviðs Skeljungs. Smurolía er framleidd úr hliðarafurð flugvélaeldsneytis, en lítil framleiðsla á flugvélaeldsneyti síðastliðið ár vegna mikils samdráttar í flugsamgöngum hefur nánast þurrkað upp framboð þeirra olíuefna sem nýtt eru til smurolíuframleiðslu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í máli Þórðar Guðjónssonar í sjónvarpsþætti Markaðarins sem sýndur er á Hringbraut klukkan 21 í kvöld.

„Nú er orðinn skortur á þessari hliðarafurð sem verður til [við framleiðslu flugvélaeldsneytis] og þar að leiðandi er ekki til neitt eða mjög lítið hráefni til smurolíuframleiðslu. Þessi svokallaði spot-markaður er uppurinn. Það er ekkert til. Þannig að þessir helstu framleiðendur eru allir búnir að flagga því að það er skortur og mun verða skortur en eftirspurnin er mjög mikil,“ segir hann.

Þórður nefnir að jafnaðarverð algengra olíuvara, svosem bensíns og díselolíu, liggi í kringum 600 Bandaríkjadali á tonnið um þessar mundir. Afgangsolían sem nýtt er til smurolíuframleiðslu er jafnan nokkuð ódýrari, en kostar í dag yfir 1500 Bandaríkjadali fyrir tonnið.

„Minni framleiðendur eru að lenda í miklum vandræðum og stóru framleiðendurnir hafa flaggað því að það verði verðhækkanir og skortur. Við munum ekki fá allt það magn sem við þurfum og það er seinkun á framleiðslunni,“ segir hann og bætir því við að einhver vandamál gætu skapast vegna þessa hér á landi síðar á árinu.

„Þetta er bara hluti að því sem er að gerast um allan heim með hrávöru. Hrávörur eru að verða dýrari, öll aðföng í grunnkeðjuna eru að verða dýrari sem og flutningurinn,“ segir Þórður, sem nefnir einnig að þessa muni líklega gæta í verðbólgumælingunni á Íslandi.