Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga er því spáð að árið 2027 verði framleiðslan metin á 170 milljarða íslenskra króna. Ör vöxtur greinarinnar byggir að stórum hluta á aukinni eftirspurn eftir umhverfisvænni próteinframleiðslu.

Um 97 prósent söfnunar og ræktunar þörunga fara fram í Asíu, en fyrirsjáanlegt er að vöxturinn á næstu árum verði í Evrópu. Þá aðallega við strandlengjur á norðlægum slóðum.Þar eru lönd eins og Ísland í kjörstöðu, þar sem aðgengi að auðlindinni við strandlengjur er gott og aðstæður til ræktunar hentugar. Framboð á hreinni orku og landrými gerir Ísland þannig að ákjósanlegum valkosti fyrir fjárfesta og fyrirtæki sem hyggja á landvinninga í greininni.

Fjölmörg fyrirtæki eru þegar farin að taka fyrstu skrefin í tilraunum, ræktun og nýtingu á þörungum hér á landi. Skortur á lagaramma, stefnu og umhverfi frá hendi stjórnvalda stendur hins vegar frekari uppbyggingu fyrir þrifum. Fyrirtæki hafa átt erfitt með að verða sér úti um tilraunaleyfi auk þess sem strandsvæðaskipulag skortir víða.

Markmið í stjórnarsáttmála um aukna áherslu á sjálfbæra þróun náttúruauðlinda í tengslum við loftslagsmál eru skýr. En í tilfelli þörungavinnslu skilar Ísland, enn sem komið er, auðu.

Undir forystu Silju Daggar Gunnarsdóttur, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, var lögð fram þingsályktunartillaga árið 2020. Tillagan miðaði að því að fela viðeigandi ráðherrum að skýra leikreglur í greininni og marka stefnu. Smíða svo í framhaldinu lagaumgjörð og reglur varðandi ræktun og söfnun þörunga á landi og í sjó.

Silja Dögg segist ekki alveg skilja af hverju stjórnvöld hreyfi sig svona hægt í þessu máli. Greinin sé að öllu leyti umhverfisvæn og kolefnissporið jákvætt. Þarna séu tækifæri sem geti hæglega runnið okkur úr greipum ef stjórnvöld fari ekki að átta sig á stöðunni og skapa greininni það umhverfi sem fyrirtækin hafa kallað eftir um árabil.

Í svörum frá matvælaráðuneytinu segir að fyrirtæki í greininni hafi um nokkurt skeið bent á að núverandi lagarammi fyrir þörungavinnslu sé ófullnægjandi. Nauðsynlegt sé að gera hann skýrari. Nýlega hafi verið hrundið af stað vinnu við stefnumörkun fiskeldis hjá ráðuneytinu og verði stefna í þörungarækt unnin samhliða því verkefni