Við höfum áhuga á að koma á fót banka sem skorar stóru bankana á hólm,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. „Sá banki væri ekki með þunglamalega yfirbyggingu eða fortíðarvanda á borð við gömul tölvukerfi, eins og stóru bankarnir þrír. Það er lúxus að geta byrjað frá grunni,“ segir hann.
Vonir standa til að Lykill, sem TM keypti nýverið, fái viðskiptabankaleyfi um mitt næsta sumar. „Ég hef ekki áhuga á að stofna alhliða banka heldur munum við finna okkar syllu á markaðnum. Til viðbótar við þá þjónustu sem Lykill býður, sem er að stærstum hluta fjármögnun bíla og atvinnutækja, munum við byrja á að bjóða innlán,“ segir hann.
Tryggingafélagið keypti Lykil á 9,25 milljarða króna, auk þess mun hagnaður ársins renna til seljanda. Reiknað er með að hann muni nema um 600 milljónum króna. Hlutfall kaupverðs á móti áætluðu eigin fé, svokallað V/H hlutfall, í árslok 2019 er 0,82 miðað við áætlanir um afkomu Lykils á árinu 2019. „Við erum að kaupa eigið fé á afslætti,“ segir Sigurður.
Hann segir að eigið fé TM sé meira en þurfi til rekstrarins og verði nýtt við kaupin. Til að fjármagna það sem upp á vantar verður ráðist í þriggja milljarða króna hlutafjáraukningu að markaðsvirði. Útboðið hófst á mánudag og lýkur á morgun.

Fyrirvaralítið tilboð
Hvers vegna keypti TM Lykil?
„Undanfarin ár höfum við velt vöngum yfir því hvað framtíðin í tryggingarekstri muni bera í skauti sér í ljósi aukinnar sjálfvirknivæðingar og tæknibreytinga. Við erum þeirrar skoðunar að bílatryggingar, sem eru langsamlega stærsti þáttur trygginga, muni dragast saman þegar sjálfkeyrandi bílar munu ryðja sér til rúms. Leiða má líkur að því að slíkir bílar muni lenda í færri tjónum og það leiði til lægri iðgjalda.
Af þeim sökum höfum við haft áhuga á að skjóta nýrri stoð undir reksturinn. Við höfum fylgst vel með þróuninni erlendis. Mörkin á milli banka, trygginga og lífeyrissjóða eru að verða óskýr. Af þeim sökum höfum við skoðað hvort hyggilegt væri að reka séreignasjóði, eignastýringu eða leggja stund á fjármögnunarstarfsemi.
TM hefur í áratugi stundað fjármögnunarstarfsemi þótt umsvifin hafi verið lítil. Við höfum einungis boðið upp á hefðbundið veðlán en ekki lánasamninga eða leigusamninga. Við þekkjum því ágætlega til. Í fyrra bauðst tækifæri til að kaupa Lykil þegar fyrirtækið fór í söluferli.
Við kynntum okkur félagið ofan í kjölinn, mótuðum framtíðarsýn um hvernig samþætta mætti reksturinn við TM og buðum í fyrirtækið. Tilboð okkar var álitlegast og nánari viðræður hófust við Klakka, eiganda Lykils, en það slitnaði upp úr þeim. Það náðust ekki samningar.
Þegar rykið hafði sest og við fórum að skoða að stofna sambærilegt félag frá grunni, þá áttaði ég mig á að ég var svekktur yfir því hvernig fór. Það var því ákveðið að gera aðra atlögu í sumar. Áður en einkaviðræður hófust aftur vorum við og viðsemjandinn búin að ákveða verð og helstu skilmála.
Tilboðið var eins fyrirvaralaust og hægt var. Að sjálfsögðu urðu eftirlitsstofnanir, það er Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið, að samþykkja kaupin sem og hluthafafundur TM. Það hefði mikið þurft út af að bera í áreiðanleikakönnun til að samningar myndu ekki nást.
Samkeppniseftirlitið og hluthafafundur hafa samþykkt kaupin og beðið er eftir heimild til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki frá Fjármálaeftirlitinu.“

Hver er munurinn á samningunum sem fallið var frá og þeim sem síðar voru samþykktir?
„Það hefur ýmislegt breyst. Má nefna að eigið fé Lykils er minna eftir arðgreiðslu til eigenda og fækkað hefur í eigendahópi Klakka. Það einfaldaði samningaviðræður.
Það sem meðal annars flækti okkar fyrra tilboð var að við sóttumst eftir seljendaláni til að fjármagna hluta af kaupverðinu en í seinna skiptið var boðið reiðufé í allt félagið. Við leitum því til hluthafa TM til að brúa það sem upp á vantar.“
Sigurður segir að starfsfólk Lykils muni starfa í höfuðstöðvum TM við Síðumúla. „Lykill og TM munu sinna sölu, þjónustu og þróun en móðurfélagið mun annast stoðþjónustu. Upplýst verður um hver samlegðaráhrifin verða samhliða birtingu ársuppgjörs TM.“
Stórt skref að kaupa Lykil
Horfið þið til þess að sameina Lykil eða TM öðru fjármálafyrirtæki?
„Nei, það er stórt skref að kaupa Lykil. Efnahagsreikningur félagsins er álíka stór og TM. Við erum því nánast að tvöfalda efnahagsreikning sameinaðs félags. Það verður ærið verkefni að sameina þau.“

Hvernig horfir við þér að fjárfesta í bílalánasafni þegar samdráttur er í efnahagslífinu og vanskil munu mögulega aukast?
„Ef til vill er það ekki heppilegasti tíminn til að fjárfesta í bílalánasafni þegar hægja tekur á hagkerfinu. Við höfum látið gera áreiðanleikakönnun og teljum að lánasafnið standi vel og veðin séu góð. Ég hef því ekki áhyggjur af lánasafni Lykils.“
Hvað er skattaleg inneign Lykils mikil?
„Skatteign félagsins stendur í tæplega 1,1 milljarði króna. Raunar gæti fjárhæðin verið enn hærri ef væntur hagnaður félagsins verður meiri. Það verður að vera raunhæft að hún nýtist til að hægt sé að bókfæra hana í því skyni að hún gefi glögga mynd af stöðu félagsins. Ef afkoman verður enn betri en reiknað er með, getur verið meiri skatteign til staðar sem hægt yrði að nýta.“
Sigurður bendir á að nýta verði skattalega inneign Lykils í skyldri starfsemi og því má ekki yfirfæra hana á rekstur TM.

Þú hefur stýrt TM í tólf ár. Hver hefur verið mesta breytingin á rekstrinum á tímabilinu?
„Þegar horft er til tryggingafélaganna utan frá mætti halda að lítið hefði breyst. Staðreyndin er hins vegar sú að margt hefur breyst. Langstærsta breytingin lýtur að samsettu hlutfalli. Þegar ég hóf störf hjá TM árið 2007 voru hlutföllin um 120-130 prósent hjá tryggingafélögunum fjórum hér á landi. Nú verða stjórnendur tryggingafélaganna svekktir ef hlutfallið er ekki vel undir 100 prósent,“ segir Sigurður.
Samsetta hlutfallið segir til um hvernig til tókst að láta iðgjöld mæta kostnaði við tjón og rekstur félagsins. Þetta er því mælikvarði á grunnrekstur tryggingafélaga. Eftir því sem hlutfallið er lægra því betur tókst til að láta iðgjöld, það er tekjur, mæta kostnaði. Hinn armurinn í rekstri tryggingafélaga eru fjárfestingar. Tryggingafélög taka við iðgjöldum, fjárfesta þau og greiða út tjón seinna.
Hafði víðtækar heimildir
„Stjórnarhættir hafa einnig tekið stakkaskiptum. Þegar ég hóf störf hafði TM ekki mótaða fjárfestingastefnu. Segja má að fjárfestingarnar hafi verið í öðrum vasa forstjórans. Fram kom í fjölmiðlum að ég væri forstjóri sem hefði víðtækar heimildir. Það var alveg rétt. Það skorti ramma um hvaða fjárfestingar forstjóri mætti ákveða, hvað starfsmenn fjárfestingateymisins – sem þá var ekki til staðar – mættu ákveða og hvaða fjárfestingar stjórn TM yrði að samþykkja.
Þessar breytingar eru til bóta fyrir mig sem forstjóra. Í hlutafélagalögum segir að forstjóri annist daglegan rekstur og megi ekki taka mikils háttar eða óvenjulegar ákvarðanir heldur séu þær í höndum stjórnar. En hvað er mikils háttar fjárfestingarákvörðun hjá félagi sem er með 30 milljarða króna fjárfestingabók?
Það er afar óþægilegt að hafa víðtækar óskilgreindar heimildir. Það var því nauðsynlegt að skýra þær.
Ég er stoltur af því að við mörkuðum okkur þessar reglur árið 2008 áður en löggjafinn setti vátryggingafélögum skýrari ramma.“

Hver hefur verið mesta áskorunin á þessu tímabili?
„Þær hafa verið ýmsar. Það var heilmikil áskorun fyrir 31 árs gamlan mann að taka við stóru fyrirtæki. Árið síðar hrundi fjármálakerfið og því fylgdu miklar áskoranir. TM átti á þeim tíma dótturfélag í Noregi sem heitir Nemi og var svipað að stærð og TM hvort sem litið er til iðgjalda eða efnahags. Ég var stjórnarformaður Nemi og það var krefjandi að vinna með stjórnendum félagsins á þeim tíma. Að sama skapi höfðu lánshæfismatsfyrirtækin meiri trú á reyndu norsku stjórnendum tryggingafélagsins en unga Íslendingnum.
Það sem bjargaði TM í hruninu var að við höfðum selt allar áhættusamar fjárfestingareignir sem við gátum komið í verð. Við reyndum að gera slíkt hið sama í Noregi en mættum mótspyrnu. Við hefðum getað selt enn fleiri eignir ef stjórnendur Nemi hefðu verið samvinnuþýðir. Þarna spilaði inn munur á menningu, Norðmennirnir voru reyndari og við hlustuðum á sjónarmið lánshæfismatsfyrirtækja. Eflaust hefði ég gert hlutina öðruvísi ef ég stæði í sömu sporum í dag með þá reynslu sem ég hef aflað mér. Að sama skapi bý ég líka yfir meira sjálfstrausti nú. Þessi tólf ára vegferð byrjaði með miklum látum.
Eftir hrunið tók Gunnar Andersen við sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins og við tók undarlegur tími hjá stofnuninni. Mér leið eins og ég sætti stöðugum lögreglurannsóknum. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins rannsökuðu TM í bak og fyrir. Við sátum undir alls kyns dylgjum og samsæriskenningum.
Þetta var erfiður og óþægilegur tími. Ég er þakklátur fyrir það að stjórn TM stóð þétt við bakið á mér. Við höfðum ekkert að fela. Það kom í ljós að lokum.“

Mun tjónum fækka samhliða samdrætti í efnahagslífinu?
„Já, við sáum það glögglega eftir hrun. Í minnkandi hagvexti dragast tjón saman og reyndar fjárfestingartekjur líka. Þessar stoðir vinna vel saman. Í uppsveiflu má búast við góðum fjárfestingartekjum en tjónin aukast. Því er öfugt farið í niðursveiflu.
Þetta samspil er þó ekki alltaf happadrjúgt. Hlutabréfaverð byggir á væntingum um framtíðina. Fjárfestar verðleggja því niðursveiflu inn í hlutabréfaverð áður en til hennar kemur. Í fyrra lækkaði hlutabréfaverð því samdráttur var á næsta leiti nema hvað að það var enn mikill hagvöxtur í raunhagkerfinu og því var enn mikið um tjón.
Að sjálfsögðu er þessu öfugt farið í niðursveiflu þegar fjárfestar telja að hagkerfið fari að taka við sér, þá hækkar hlutabréfaverð, en það er enn hægagangur í raunhagkerfinu og því er lítið um tjón. Við lentum í slíkum aðstæðum árið 2011. Það var okkar besta ár hvað varðar samsetta hlutfallið.
Við fjárfestum mikið á árunum 2012 til 2014 í óskráðum eignum. Þær hafa verið seldar á undanförnum tveimur árum með góðum árangri. Ársávöxtun (e. IRR) eignanna er á bilinu 26 til 51 prósent,“ segir Sigurður. Um var að ræða Arnarlax, Festi og HS Veitur.

Ekki sömu fjárfestingartækifæri
„Við höfum ekki komið auga á slík tækifæri núna. Það spilar inn í ákvörðunina að kaupa Lykil. Við nýtum sex og hálfan milljarð króna úr fjárfestingabókinni til að kaupa óskráð hlutabréf, sum sé Lykil. Sá rekstur mun skila stöðugum tekjum inn í samstæðuna. Þess vegna lítum við svo á að það sé verið að draga úr áhættu og sveiflum í rekstri með kaupunum. Kaupin munu hafa í för með sér að fjárfestingartekjurnar, sem eru eðli málsins samkvæmt sveiflukenndar, verða stöðugri.“

Hvernig kom það til að TM fjárfesti í Stoðum?
„Það var tækifæri sem við gátum ekki látið fram hjá okkur fara. Upphafið má rekja til þess að Jón Sigurðsson, sem setið hafði í stjórn evrópska drykkjarvöruframleiðandans Refresco frá árinu 2009, lagði til að við tækjum þátt í að fjárfesta í fyrirtækinu árið 2017 ásamt hópi fjárfesta. Við sáum augljóst tækifæri til að hagnast á skömmum tíma,“ segir hann.
Jón var áður forstjóri FL Group sem fjárfesti í Refresco árið 2006. Í kaupendahópnum árið 2017 voru, auk TM, félög á vegum Jóns, Einars Arnar Ólafssonar fjárfestis, Örvars Kjærnested, fjárfestis og stjórnarmanns í TM, og Magnúsar Ármann, fjárfestis og fyrrverandi stjórnarmanns í FL Group.
„Refresco var selt í árslok 2017. Í kjölfarið var ákveðið að halda áfram á sömu braut og stofna fjárfestingafélag. TM er einungis með tvo og hálfan starfsmann til að annast fjárfestingar og því skynsamlegt að leggja fé í fjárfestingafélag sem við höfum mikla trú á. Við þekkjum vel til starfsmanna og stjórnar Stoða og teljum að þarna sé teymi sem geti náð betri árangri en margir aðrir. Þetta var einföld ákvörðun,“ segir Sigurður. Helstu eignir Stoða eru hlutir í Arion banka, Símanum og TM.

Skrautlegt ár í Kauphöll
Hvernig horfir gengisþróun hlutabréfa í Kauphöll Íslands við þér?
„Árið hefur verið skrautlegt. Á öðrum fjórðungi sendi TM tilkynningu til Kauphallarinnar um jákvæða afkomuviðvörun í ljósi hækkana á hlutabréfamarkaði. Svo tóku hlutabréf að lækka og upplýst var um slæma stöðu Novus, fasteignaþróunarsjóðs í rekstri GAMMA. TM birti því neikvæða afkomuviðvörun á þriðja ársfjórðungi. Í þarsíðustu viku tók hlutabréfaverð kipp vegna væntinga um að vísitölufyrirtækið MSCI myndi taka íslenska markaðinn inn í sitt vísitölumengi. Helgina eftir lækkaði hlutabréfaverð þegar í ljós kom að MSCI myndi ekki horfa til Íslands að sinni þótt hækkunin vikuna áður hefði ekki gengið til baka. Það eru því miklar sveiflur á markaðnum.
Heilt yfir tel ég að hlutabréfamarkaðurinn sé hóflega verðlagður, þótt vissulega séu undantekningar. Við sjáum tækifæri í ákveðnum félögum á markaðnum og þykir sum þeirra jafnvel mjög ódýr. “

Hvers vegna eru svona miklar sveiflur á markaðnum?
„Sveiflurnar má í sumum tilvikum rekja til þess að fjármagn ýmist streymir inn á markaðinn eða af honum en allt í sömu átt á sama tíma. Flæði getur haft mikil áhrif á hlutabréfaverð. Til dæmis komu erlendir fjárfestar inn á markaðinn á svipuðum tíma. Það hafði mikil áhrif á hlutabréfaverð. Eins hafa lífeyrissjóðir haldið að sér höndum og einkum fjárfest í erlendum hlutabréfum á árinu í því skyni að auka hlutfall erlendra eigna í eignasafninu.“
Lífeyrissjóðir hefti verðmyndun
Hvað þarf til að bæta umgjörðina um hlutabréfamarkaðinn?
„Ég er þeirrar skoðunar að lífeyrissjóðakerfið sé orðið of umsvifamikið á hlutabréfamarkaði og það geti heft eðlilega verðmyndun. Það var af hinu góða þegar erlendir fjárfestar hófu að gera sig gildandi á markaðnum eftir losun fjármagnshafta. Erlendir fjárfestar áttu þegar mest var 15 prósent í TM en hlutfallið er núna 13 prósent. Það var nýtt í sögu hlutabréfamarkaðarins að erlendir fjárfestar sýndu honum svo mikinn áhuga.
Tiltölulega fáir einkafjárfestar eru á markaðnum um þessar mundir en nefna má til dæmis fjárfestingafélagið Stoðir og ýmsa efnameiri einstaklinga. Hinn venjulegi Íslendingur hefur í flestum tilfellum ekki tök á að leggja meira fyrir í hverjum mánuði en það sem hann greiðir í lífeyrissjóð. Nær allur sparnaður Íslendinga rennur í lífeyrissjóðina. Það er áhyggjuefni enda eiga lífeyrissjóðir um það bil helming af íslenska hlutabréfamarkaðnum og ráða því að nokkru leyti verðmyndun hans.
Margir erlendir fjárfestar hafa áhuga á að festa kaup á íslenskum hlutabréfum en taka ekki af skarið í ljósi þess hve lítil velta er á markaðnum. Þeir óttast að eiga í erfiðleikum með að selja bréfin þegar að því kemur. Erlendir sjóðsstjórar vilja geta skipt um skoðun og keypt og selt eftir hentugleika.
Það væri til bóta ef kerfið væri einfaldað og séreignarsparnaður fólks væri í meiri mæli í eignastýringu hjá verðbréfafyrirtækjunum. Verðbréfasjóðirnir þurfa að vera umsvifameiri á hlutabréfamarkaði. Þeir hreyfa sig mest, kaupa og selja hlutabréf eftir hentugleika. Það skapar seljanleika á markaðnum sem margir fjárfestar, þar með talið erlendir, telja til grundvallarþáttar sem þurfi að vera til staðar áður en fjárfest er á tilteknum markaði.“

Kom til greina sem bankastjóri Arion
Sigurður staðfestir að hann hafi komið til greina sem forstjóri Arion banka. „Ég sóttist ekki eftir starfinu en ég neita því ekki að það var haft samband við mig. Þetta er áhugaverð staða en mér þykir vegferðin sem TM er á feykilega spennandi. Það er mun skemmtilegra að stýra félagi sem er í vexti en að takast á við fortíðarvanda sem Arion banki er að einhverju leyti að glíma við núna á borð við gömul tölvukerfi og skipulag sem átti við þegar bankinn var stærri. Í þeim aðstæðum getur verið erfitt að koma verkum í framkvæmd með því sniði sem stefnt var að. Það er spennandi að hafa hreint borð, sérstaklega þegar fjártækni er að ryðja sér til rúms, koma á fót banka og keppa við Arion og aðra banka á afmörkuðum sviðum,“ segir hann.

Krafa um aukið eftirlit eftir GAMMA-klúður
„Það var margt sem klikkaði í rekstri Novus, fasteignaþróunarsjóðs GAMMA. Ekki bara starfsmenn GAMMA heldur aðrir í keðjunni, til dæmis verkfræðistofur, enda var eftirlitinu ábótavant,“ segir Siguður. TM fjárfesti í sjóðnum en eigið fé hans þurrkaðist út í sumar þegar eignir voru endurmetnar eftir kaup Kviku banka á GAMMA.
„Það er verið að draga upp mynd af því sem aflaga fór við rekstur sjóðsins. Það er augljóst að ekki var gætt aðhalds í kostnaði. Eflaust skiptir þar máli að um var að ræða sjóðsstjóra í fasteignasjóði í stað reynds byggingarverktaka.
Þetta kennir okkur að jafnvel þótt menn séu flinkir í að rýna í hagtölur og markaðinn þá skiptir önnur reynsla líka máli. Ég trúi því enn að ekkert saknæmt hafi átt sér stað. Við fáum vonandi niðurstöður hvað það varðar á nýju ári. Það geta allir lært af þessu.“
Hvað er hægt að lært af þessu?
„Við hjá TM munum gera kröfur um aukið eftirlit og sérfræðiþekkingu á hverju sviði þegar kemur að fjárfestingum í framtakssjóðum. Það sem við lögðum mat á reyndist allt rétt, tækifærið var til staðar og gekk vel framan af en framkvæmdin klikkaði á síðari stigum.“

Skaðabótakerfið með öðru sniði hér en annars staðar
Neytendasamtökin hafa vakið athygli á að iðgjöld trygginga eru hærri hér á landi en í samanburðarlöndum. „Það er verið að bera saman epli og appelsínur,“ segir Sigurður. „Skaðabótakerfið er að ýmsu leyti með öðrum hætti hér en annars staðar. Í Danmörku eru til dæmis ekki greiddar örorkubætur fyrir minna en 15 prósent örorku en hér á landi er miðað við eitt prósent örorku.
Ísland ætti að horfa til annarra landa hvað þetta varðar. Tryggingafélögin myndu þess í stað greiða fyrir atvinnutjón, miskabætur og sjúkrakostnað,“ segir hann.
Sigurður segir að mikill tími fari oft til spillis við að bíða eftir örorkumati. Betra sé fyrir þá sem lenda í slysum að fara við fyrsta tækifæri í sjúkraþjálfun og setja þannig sem mesta áherslu á endurhæfingu. Ef ekki sé gripið inn í sé hætta á að meiðslin verði verri og afleiðingarnar afdrifaríkari. Aftur á móti þýðir meiri örorka hærri örorkubætur fyrir viðkomandi. „Þetta er ekki hollt fyrir samfélagið að hvatakerfinu sé stillt upp með þessum hætti,“ segir hann.
Sigurður segir að hluti af vandanum sé sá að þetta fyrirkomulag leiði til þess að þeir sem metnir séu með hærri örorku fái lægri bætur því kerfið sé dýrara en annars staðar. Of lítill munur sé á greiddum bótum til þeirra sem eru metnir með lága örorku og þeirra sem eru metnir með hærri örorku.
„Það fer afar mikill tími tryggingafélaga í þessi minni mál. 91 prósent af okkar málafjölda lýtur að örorku sem er undir 15 prósentum og 75 prósent af örorkubótum snúa að málum sem eru undir 15 prósent örorku,“ segir hann.