Blaðamannafélag Íslands hefur sent bréf á formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja, sem nú eru í stjórnarmyndunarviðræðum, þar sem fram koma tillögur sem efla eiga rekstrarumhverfis íslenskra fjölmiðla. Í bréfinu sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður félagsins, skrifar undir eru þau Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hvött til að tryggja að frjálsir, sjálfstæðir og óháðir fjölmiðlar þrífist á Íslandi.
Í bréfinu eru svo birtar átta tillögur sem eiga uppruna sinn úr skýrslu sem Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra lét vinna fyrir þremur árum með útfærslu Blaðamannafélagsins.
Meðal þess sem lagt er til er að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði með þeim fyrirvara að stofnuninni verði bætt tekjutapið með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði. „Þá er nauðsynlegt að tryggja fjárveitingu til RÚV til lengri tíma, til að mynda 8-10 ára í senn og setja ákvæði inn í þjónustusamning þess efnis,“ segir í bréfinu. „Ennfremur þarf að tryggja sjálfstæði fréttastofu RÚV innan stofnunarinnar, til að mynda með því að girða fyrir það að starfsemi fréttastofu RÚV verði skorin niður, fari svo að fjárveitingar til stofnunarinnar verði skertar.“
Einnig er lagt til að erlendir tæknirisar á íslenskum auglýsingamarkaði verði skattlagðir, þannig muni samkeppnisstaðan skána til muna. Samhliða því eigi hið opinbera, stofnanir, ríkisfyrirtæki og stjórnmálaflokkar að setja stefnu um hlutfall auglýsingafjár til erlendra miðla.
Blaðamannafélagið leggur einnig til að áfengisauglýsingar verði heimilar. Í bréfinu segir að töluverðs misræmis gæti milli erlendra og innlendra miðla þegar kemur að tekjumöguleikum. „Með aukinni notkun Íslendinga á erlendum fjölmiðlum, samfélagsmiðla og efnisveitna hafa forsendur fyrir banni gegn birtingu áfengisauglýsinga brostið og mismunun orðið til,“ segir í bréfinu. „Íslenskir fjölmiðlar ættu að hafa sömu tækifæri til fjármögnunar á grundvelli birtingar áfengisauglýsinga og erlendir miðlar sem eru á sama markaði.“
Fyrirvari um hagsmunatengsl: Blaðamenn Fréttablaðsins eru félagar í Blaðamannafélagi Íslands.