Icelandair Group hefur skrifað undir tvær vilja­yfir­lýsingar um að kanna mögu­leika á orku­skiptum í innan­lands­flugi fé­lagsins. Annars vegar við Uni­ver­sal Hydrogen sem til­kynnt var um í morgun, en það er fyrir­tæki sem hefur hannað orku­skipta­búnað sem gæti breytt Dash-8 vélum Icelandair í vetnis­knúnar vélar. Þá hefur fé­lagið einnig skrifað undir vilja­yfir­lýsingu við Heart Aerospace sem vinnur að þróun far­þega­flug­véla sem ganga fyrir raf­magni.Þetta kemur fram í til­kynningu frá Icelandair.

„Icelandair hefur metnað til að minnka kol­efnis­spor af flug­starf­semi og til þess að ná al­þjóð­legum við­miðum um kol­efnislosun er ljóst að þörf er á um­hverfis­vænum lausnum í flugi sem hægt er að taka í notkun sem fyrst. Stuttar flug­leiðir og greiður að­gangur að raf­orku af endur­nýjan­legum upp­runa setur Ís­land í lykil­stöðu hvað varðar orku­skipti í innan­lands­flugi. Verk­efnin falla einnig vel að stefnu­ramma stjórn­valda um fram­tíð ferða­þjónustu sem miðar að því að gera Ís­land leiðandi í sjálf­bærni,“ segir í til­kynningunni.

Icelandair hefur unnið með Heart Aerospace um nokkurt skeið og mun á næstunni setja af stað greiningar­vinnu í sam­vinnu við Uni­ver­sal Hydrogen. Á sama tíma mun fé­lagið hefja sam­tal við helstu hag­aðila, svo sem raf­magns- og vetnis­fram­leið­endur, flutninga­fyrir­tæki og flug­valla­rek­endur.

„Icelandair setur markið hátt þegar kemur að um­hverfis­málum og við teljum okkur vera í góðri stöðu til að verða á meðal fyrstu flug­fé­laga heims til að gera innan­lands­flug kol­efnis­laust. Heart Aoerospace og Uni­ver­sal Hydrogen hafa kynnt spennandi lausnir sem henta vel fyrir innan­lands­flug og hægt væri að taka í notkun innan fárra ára. Eftir því sem tækninni fleygir fram vonumst við til þess að hægt verði að nýta þá reynslu sem skapast af orku­skiptum í innan­lands­flugi til hraðari inn­leiðingar nýrra orku­gjafa í milli­landa­flugi. Það er á­nægju­legt að vera á meðal fyrstu þátt­tak­enda í þessum verk­efnum sem gætu gjör­breytt kol­efnislosun í innan­lands­flugi á fáum árum,“ segir Jens Þórðar­son, fram­kvæmda­stjóri flug­rekstrar Icelandair Group.