Bankasýsla ríkisins mun kanna hvort hagkvæmt sé að greiða hluta af umfram eigin fé Íslandsbanka, sem nemur samtals um 57,6 milljörðum króna, til hluthafa fyrir sölu bankans. Þættir eins og fjármögnun hluta af arðgreiðslunni, og væntingar um þróun lánasafnsins takmarka þó arðgreiðslugetuna. Þetta kemur fram í kynningu sem Bankasýsla ríkisins hélt fyrir fjárlaganefnd Alþingis í síðustu viku.

„Það geta verið veigamikil rök nýrra fjárfesta að eignast hlut í banka, sem hefur jafnmikið umfram eigið fé og Íslandsbanki. Af þeim sökum mun Bankasýsla ríkisins meta það ásamt ráðgjöfum sínum á hversu háum hlutafjármargfaldara umfram eigið fé er verðmetið af hugsanlegum fjárfestum,“ segir í kynningunni.

Stjórnvöld stefna að því að selja fjórðungshlut í Íslandsbanka. Áætlað er að ferlið takið að lágmarki fimm mánuði og er eingöngu horft til skráningar á markaði hérlendis.

Algengasti verðmatsmælikvarðinn á hlutabréfum í evrópskum bönkum er svokallaður hlutafjármargfaldari, það er markaðsvirði sem margfeldi af bókfærðu virði undirliggjandi eigin fjár. Eftir því sem væntingar markaðarins um framtíðararðsemi eigin fjár eru meiri, á þeim mun hærri hlutafjármargfaldara eru hlutabréf í bönkum metin.

„Fræðilega séð ætti ríkið að fá 100 aura fyrir hverja krónu sem bankinn er með í umfram eigið fé.“

Ef verðmat á umfram eigin fé er nálægt margfeldinu 1,0 gæti verið betra, samkvæmt kynningu Bankasýslunnar, að greiða ekki út sérstakan arð til að stuðla að bættri eftirspurn.

„Fræðilega séð ætti ríkið að fá 100 aura fyrir hverja krónu sem bankinn er með í umfram eigið fé,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, í samtali við Markaðinn. Þannig myndi ekki skipta ríkissjóð máli, út frá markmiðinu um að hámarka endurheimtur af eignarhlutnum, hvenær umfram eigið fé yrði greitt út.

Ef verðmat á umfram eigin fé er aftur á móti lægra en 1,0 gæti verið betra, samkvæmt kynningunni, að greiða út sérstakan arð fyrir sölu.

Jón Gunnar ítrekar að það sé á forræði stjórna en ekki hluthafa að leggja til arðgreiðslur. Stjórn banka geti ráðstafað umfram eigin fé með þrenns konar hætti.

„Stjórnin getur ákveðið að viðhalda umfram eigin fénu til að hafa svigrúm fyrir útlánavöxt. Sama gildir ef bankinn sér fram á frekari varúðarniðurfærslur á lánasafninu. Í þriðja lagi er hægt að greiða umfram eigið fé sem arð til hluthafa,“ útskýrir Jón Gunnar.

Víkjandi lán er hindrun

Samkvæmt kynningu Bankasýslunnar er umfram almennt eigið fé Íslandsbanka nú 57,6 milljarðar króna en það er fræðilegt hámark arðgreiðslugetu Íslandsbanka. Stofnunin bendir á að ríkissjóður fái arð í hlutfalli við eignarhlut sinn í bankanum og þannig sé ekki verið „að gefa“ umfram eigið fé bankans.

Ef stjórn bankans tæki ákvörðun um arðgreiðslu til hluthafa væri hins vegar mjög ólíklegt að svigrúmið yrði nýtt til fulls. Bankasýslan bendir á að 17,1 milljarð þyrfti að fjármagna með útgáfu á víkjandi skuldabréfi. Vaxtakostnaður við slíkt skuldabréf liggur á bilinu 8-9 prósent og vaxtagreiðslur koma ekki til frádráttar við útreikning á tekjuskatti.

„Fjármagnskostnaður slíkra skuldabréfa er því umfram arðsemiskröfu ríkisins á eigið fé í bankanum, segir í kynningunni en krafan er 5,75 prósent.

Einnig gæti þurft að draga frá samtals 21,5 milljarða króna á grundvelli varúðarsjónarmiða. Bankasýslan bendir á að skuldbindingar um lánafyrirgreiðslur geti krafist þess að bankinn viðhaldi 9,7 milljörðum. Þá þarf bankinn að viðhalda 7,1 milljarði til að ná markmiði sínu um svokallaðan stjórnendaauka, það er eiginfjárauka umfram kröfur eftirlitsyfirvalda sem bankarnir setja sér sjálfir, og 4,7 milljarða til að geta mætt mögulegri hækkun á sveiflujöfnunarauka.

isb.JPG

Eftir stendur þá svigrúm upp á 19 milljarða króna af umfram eigin fé. Sú upphæð tekur þó ekki tillit til almennrar arðgreiðslu en á grundvelli breytinga á tilmælum Seðlabanka Íslands vegna arðgreiðslna er viðbúið að Íslandsbanki geti greitt 3 til 4 milljarða króna í reglulegan arð sem væri óháður sölu. Þá tekur upphæðin ekki tillit til mögulegrar virðisrýrnunar á útlánum eða frekari útlánavaxtar.

Aðrir valkostir ekki jafn hagstæðir

Bankasýslan hafði lagt mat á aðra valkosti en sölu, til að mynda samruna við annað fjármálafyrirtæki eða sölu rekstrareininga Íslandsbanka, í skýrslu frá mars á síðasta ári. Niðurstaða stofnunarinnar um að slíkar ráðstafanir væru ekki jafn hagstæðar og sala á eignarhlut í bankanum er óbreytt.

„Með samruna við Arion banka myndi ríkissjóður eignast hluti í þeim banka, en ekki afla reiðufjár sem unnt væri að nota til að greiða niður skuldir eða ráðast í arðbærar innviðafjárfestingar,“ segir í kynningunni.

Þá er bent á að ágreiningur gæti komið upp um hversu stóran hlut ríkissjóður ætti að eiga í sameinuðum banka og allar greiningar á samþjöppun á fjármálamarkaði leiði í ljós að Samkeppniseftirlitið myndi aldrei samþykkja samrunann. Samkeppni myndi minnka til muna. Niðurstaða Bankasýslunnar var sú að sá sparnaður sem yrði í rekstrarkostnaði sameiginlegs banka yrði nægjanlegur til að réttlæta aukna samþjöppun og röskun á fjármálastöðugleika.

Eftir sölu Íslandsbanka á Borgun á bankinn ekki hluti í veigamiklum dótturfélögum sem teljast utan kjarnastarfsemi.

„Þar sem sala á eignum eða rekstrareiningum yrði að öllum líkindum til annarra fjármálafyrirtækja myndi samþjöppun á markaði aukast og Samkeppniseftirlitið því mögulega grípa inn í,“ segir í kynningunni. Sala á eignum tengdum kjarnastarfsemi geti leitt til þess að dýrmæt viðskiptasambönd tapist.