Seðlabanki Íslands getur ekki gefið upp hvort fjármálaeftirlit bankans muni taka til skoðunar hvort ákvörðun stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LIVE) um þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair Group hafi verið í samræmi við þau viðmið sem fjármálaeftirlitið setur sjóðnum.

„Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur fylgst vel með framvindu hlutafjárútboðs Icelandair. Við undirstrikum sem fyrr mikilvægi sjálfstæðis stjórna lífeyrissjóða,“ segir í skriflegu svari frá Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra við fyrirspurn Markaðarins.

„Almennt gildir það að ef ástæða er talin til að skoða ákvarðanatöku stjórnar eftirlitsskylds aðila fer sú skoðun fram á vettvangi hins eftirlitsskylda aðila og samkvæmt þeim viðmiðum sem um eftirlitið gilda.“

Tillaga um að lífeyrissjóðurinn myndi skrá sig fyrir 2,5 milljarða króna hlut í hlutafjárútboði Icelandair Group féll á jöfnum atkvæðum þar sem fjórir stjórnarmenn greiddu atkvæði með og fjórir greiddu atkvæði gegn. Stjórnarmennirnir sem kusu gegn tillögunni voru allir tilnefndir í stjórn af VR.

Stjórn VR sendi frá sér yfirlýsingu 17. júlí síðastliðinn vegna málefna Icelandair. Þar var þeim tilmælum beint til stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn lífeyrissjóðsins að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Var það gert vegna óánægju stjórnar VR með það hvernig Icelandair hefði staðið að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands.

Þá sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við Fréttablaðið sama dag að stjórnarmönnum VR í sjóðnum, sem ekki færu eftir tilmælunum, yrði skipt út. Tilmælin voru dregin til baka af stjórn VR eftir harða gagnrýni.

Seðlabankastjóri sagði í viðtali við Fréttablaðið í lok júlí að mikilvægt væri að lífeyrissjóðirnir, stærstu hluthafar Icelandair Group, tækju upplýsta og sjálfstæða ákvörðun án tillits til utanaðkomandi skoðana. Ljóst væri þó að tilmæli stjórnar VR hefðu sett þá stjórnarmenn LIVE sem voru tilnefndir af stéttarfélaginu í mjög erfiða stöðu.

„Ef stjórnarmennirnir hafna því að taka þátt í útboðinu vakna strax grunsemdir um að þeir lúti skugga­stjórn. Þessi tilmæli draga úr trúverðugleika stjórnarmanna LIVE og eru mjög óheppileg að því leyti,“ sagði Ásgeir.