Ómar Örn Jónsson hefur tekið við nýju starfi sem framkvæmdastjóri velferðartækni hjá Öryggismiðstöðinni. Ómar hefur starfað hjá Öryggismiðstöðinni allt frá árinu 2003 og setið í framkvæmdastjórn fyrst sem yfirmaður sölumála og síðar sem framkvæmdastjóri markaðsmála.

Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri velferðartækni Öryggismiðstöðvarinnar.

,,Mikill vöxtur hefur einkennt starfsemi fyrirtækisins á sviði velferðar- og heilbrigðistækni á undanförnum misserum og taka þessar breytingar mið af áherslum félagsins á enn frekari sókn og vöxt á því sviði,” segir Ómar Örn.

Við starfi markaðsstjóra Öryggismiðstöðvarinnar tekur Auður Lilja Davíðsdóttir sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra sölusviðs en samhliða þessum breytingum eru markaðs- og sölusvið nú sameinuð undir stjórn Auðar Lilju. Hún hefur starfað hjá Öryggismiðstöðinni síðastliðin 17 ár og verið stjórnandi á sölusviði síðan 2013. Hún er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá Háskóla Íslands.

Auður Lilja Davíðsdóttir, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar.

,,Öryggismiðstöðin er framsækið þjónustufyrirtæki með stórt lausnaborð meðal annars í öryggislausnum og velferðartækni og það verður skemmtilegt að fá að taka þátt í því ásamt góðu fólki að efla enn frekar ásýnd fyrirtækisins og halda áfram því öfluga starfi sem unnið hefur verið undanfarin ár," segir Auður Lilja.