Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá Krónunni þar sem meðal annars innkaup og vörustýring hafa verið sameinuð, þjónustusviði bætt við rekstrarsvið, umhverfismálum við markaðssvið og nýtt svið viðskiptaþróunar og umbótaverkefna stofnað, segir í tilkynningu.

„Markmið þessara breytinga er að styrkja samkeppnisstöðu Krónunnar á matvörumarkaði með því að skerpa á innra skipulagi og auka samvinnu þvert á fyrirtækið,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Nýr starfsmaður, Guðrún Aðalsteinsdóttir, hefur verið ráðin forstöðumaður innkaupa og vörustýringar Krónunnar „en með sameiningu þessa tveggja lykilsviða næst enn betri samþætting í gegnum alla virðiskeðjuna frá upphafi til enda,“ er haft eftir Ástu Sigríði.

Guðrún er rekstrarverkfræðingur, hún hefur undanfarin ár starfað sem forstöðumaður hjá Icelandair á rekstrarsviði þar sem hún var ábyrg fyrir m.a. sölu og þjónustu í flugvélum félagsins, vöruþróun, innkaupum, birgðastýringu og framleiðslu því tengdu. Guðrúnu hefur starfað sem ráðgjafi hjá fyrirtækinu um nokkra mánaða skeið og þannig kynnst starfseminni.

Guðrún Aðalsteinsdóttir er rekstrarverkfræðingur. Hhún hefur undanfarin ár starfað sem forstöðumaður hjá Icelandair á rekstrarsviði.
Mynd/Aðsend

Þá mun einn reyndasti stjórnandi Krónunnar Sigurður Gunnar Markússon taka við sem forstöðumaður viðskiptaþróunar og umbótaverkefna sem er nýtt svið innan fyrirtækisins. Sigurður Gunnar starfaði áður sem framkvæmdastjóri innkaupasviðs Krónunnar og hefur áratugareynslu af íslenskum matvörumarkaði. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu Krónunnar og mótun nýrra verslana.

Ólafur Rúnar Þórhallsson tekur við sem forstöðumaður rekstrar og þjónustu, en hann hefur gegnt starfi rekstrarstjóra síðastliðin tvö ár. Hann hefur starfað hjá Krónunni í 22 ár. Ólafur Rúnar er með próf frá Iðnskólanum í Reykjavík, verslunarstjórapróf frá Háskólanum á Bifröst ásamt því að hafa tekið vörustjórnunarnámskeið við Háskólann í Reykjavík.

Sigurður Gunnar Markússon tekur við sem forstöðumaður viðskiptaþróunar og umbótaverkefna.

Erla María Sigurðardóttir tekur við sem mannauðsstjóri Krónunnar en hún hafði unnið á mannauðssviði móðurfélags Krónunnar, Festi, í sex ár.

Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir gegnir áfram hlutverki markaðsstjóra nú sem forstöðumaður markaðs- og umhverfismála, en með þeirri viðbót er verið að skerpa enn frekar á umhverfisáherslum Krónunnar, segir í tilkynningunni.