Öll eignarhaldsfélög og fjársterkir einstaklingar, sem skráðu sig fyrir meira en 75 milljónum króna í hlutafjárútboði Íslandsbanka, fengu einungis úthlutun upp á eina milljón króna. Fréttablaðið hefur staðfestar upplýsingar um að úthlutunin hafi verið skert með þessum hætti.

Í nýafstöðnu hlutafjárútboði Íslandsbanka var níföld umframeftirspurn eftir bréfum bankans og því ljóst að skerða þurfti tilboð fjárfesta töluvert. Tilboð undir einni milljón króna voru hins vegar ekki skert.

Í tilboðsbók A, sem ætluð er almennum fjárfestum, var tekið við áskriftum að fjárhæð 50 þúsund til 75 milljóna króna, en áskriftir sem námu meira en 75 milljónum fóru í tilboðsbók B. Stórir einkafjárfestar, sem höfðu lagt fram tilboð í tilboðsbók B þurftu að sæta skerðingum niður í eina milljón, óháð því hversu hátt tilboðið var.

Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og tryggingafélög þurftu einnig að sæta töluverðum skerðingum, en fengu þó talsvert stærri skerf en einkafjárfestar og sömuleiðis gíraðir fjárfestingasjóðir.

Þá hefur Markaðurinn heimildir fyrir því að eftir að útboðinu lauk á hádegi í fyrradag hafi átt sér stað utanþingsviðskipti upp á hundruð milljóna króna, þar sem fjárfestar afsöluðu sér bréfum sem þeim var úthlutað í útboðinu. Gengi bréfanna í þessum viðskiptum var yfir 90 krónur á hlut, sem er um 15 prósentum hærra en útboðsgengið sem nam 79 krónum. Áætlað er að fyrsti dagur viðskipta með bréf í bankanum í Kauphöllinni verði 22. júní næstkomandi.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið að ríkissjóður hafi fengið gott verð fyrir eignarhlutinn í Íslandsbanka en við verðlagninguna hafi einnig verið horft til þess að fá fjárfesta að borðinu.

„Það er útilokað að við hefðum fengið sama verð fyrir ári síðan,“ segir Bjarni, spurður hvort verðið hafi verið ásættanlegt fyrir ríkissjóð.

„Það er vandasamt verk að stilla verðbilið. Það var ákveðið eftir langt ferli og speglast í verði fjármálafyrirtækja innanlands sem erlendis. En verðlagningin er líka hugsuð til þess að vekja áhuga og fá menn að borðinu, og mér finnst það hafa tekist vel.“

Fjöldi hluthafa eftir útboðið er um 24 þúsund talsins, sem er mesti fjöldi hluthafa allra skráðra fyrirtækja á Íslandi.