Skipulagsbreytingar Skeljungs miða að því að leggja aukna áherslu á vörumerkið Orkuna. Forstjóri Skeljungs telur að þar liggi tækifærin.

„Með hinu breytta skipuriti er verið að aðskilja sölu til fyrirtækja og einstaklinga. Í því felst að við ætlum að leggja aukna áherslu á vörumerkið Orkuna. Orkan var fyrsta lággjalda vörumerkið fyrir eldsneytissölu til einstaklinga hér á landi,“ er haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs, í fréttatilkynningu um skipulagsbreytingarnar.

„Það er mat mitt að þar á félagið inni tækifæri til að styrkja stöðu sína á eldsneytismarkaðinum.“

Stjórn Skeljungs ákvað í dag að breyta skipuriti félagsins, að tillögu forstjóra. Helstu breytingarnar eru þær að sölusviði fyrirtækisins hefur verið skipt upp í tvö svið, fyrirtækjasvið og einstaklingssvið. Samhliða hefur Ólafur Þór Jóhannesson verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

„Það er mikill fengur fyrir Skeljung að fá Ólaf Þór til liðs við félagið. Ég tel að hans mikla reynsla muni nýtast vel í þeim verkefnum sem eru framundan hjá okkur. Ólafur er löggiltur endurskoðandi og hefur áður stýrt fjármálasviði félags sem skráð var í Kauphöllina. Ég tel Ólaf mikilvægan liðsmann í framkvæmdastjórn félagsins,“ segir Árni Pétur.

Gróa Björg Baldvinsdóttir, yfirlögfræðingur Skeljungs, tekur sæti í framkvæmdastjórn félagsins og fjölgar þá um einn í framkvæmdastjórninni. Árni Pétur segir að það fjölgun í framkvæmdastjórninni, úr fjórum í fimm, gefi meiri breidd.

„Gróa Björg hefur starfað hjá Skeljungi í tæp 3 ár og sýnt að hún er mjög fær stjórnandi. Hún kemur því inn í framkvæmdastjórnina með sína þekkingu og reynslu. Það er styrkleiki fyrir félagið, og tímabært, að við fáum öflugan kvenkyns stjórnanda inn í stjórnendateymið.“