Stjórn Skeljungs hefur ákveðið að skerpa enn frekar á áherslum í rekstri með stofnun tveggja nýrra og sjálfstæðra dótturfélaga. Annars vegar félag um starfsemi á einstaklingsmarkaði. Starfsemi þess félags verður einkum á sviði þjónustu til einstaklinga svo sem, rekstur þjónustustöðva Orkunnar, Extra, 10-11, Löðurs bílaþvottastöðva, apóteka Lyfsalans og Lyfjavals, rekstri á Gló og ýmsum fasteignum tengdum framangreindum rekstri. Þá mun félagið halda á eignarhlutum í Brauð & Co og Wedo (Heimkaup). Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hins vegar félag um starfsemi á fyrirtækjamarkaði. Starfsemi þess verður einkum sala og þjónusta við fyrirtæki, dreifing og innkaup á eldsneyti, smurolíum, hreinsi- og efnavörum, áburði sem og öðrum vörum og þjónustuþáttum til fyrirtækja. Þjónusta og sala til stórnotenda, í útgerð, flugi og verktöku verður einnig hluti af starfseminni ásamt fasteignum tengdum framangreindum rekstri. Þá mun félagið halda á eignarhlutum í Íslenska Vetnisfélaginu, EAK, Barki og fleiri tengdum félögum.

Áður hafði verið tilkynnt um stofnun félags utan um rekstur og útleigu á birgðastöðvum í eigu Skeljungs en fyrir skemmstu hófust einkaviðræður um sölu á P/F Magn, dótturfélagi Skeljungs í Færeyjum.

Skeljungur verður móðurfélag ofangreindra rekstrarfélaga, og munu verkefni þess í auknum mæli snúa að stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum, auk annarra fjárfestinga eftir atvikum. Ráðgert er að Skeljungur verði áfram skráð félag á markaði.

„Í samræmi við áherslur og stefnumótunarvinnu félagsins hafa ýmsar veigamiklar breytingar á rekstri félagsins átt sér stað á undanförnum misserum, m.a. stofnun einstaklingssviðs, kaup á Dælunni og Löðri, einkaviðræður um sölu á dótturfélagi okkar P/F Magn, fyrirætlanir um sölu á tilteknum fasteignum í eigu Skeljungs og aukna þátttöku í rekstri apóteka en félagið mun eignast meirihluta í Lyfsalanum. Þessar breytingar eru afrakstur vinnu við mótun nýrrar stefnu félagsins um að sækja fram og nýta tækifæri á markaðnum til sóknar. Við teljum stofnun þessara dótturfélaga vera mikilvægan þátt í að skerpa áherslur þeirra tækifæra sem félagið býr yfir,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs.

Stjórn Skeljungs mun boða til hluthafafundar í félaginu, til að óska eftir heimild til sölu á P/F Magn, breyta tilgangi félagsins í samþykktum þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi auk þess sem óskað verður eftir heimild til að hefja endurkaup á eigin bréfum félagsins með tilboðs fyrirkomulagi.